Svartifoss - Sjónarsker - Sel
Svartifoss með sína formfögru stuðla er ein af náttúruperlum Skaftafells en leiðin gegnum skógarkjarrið býður ekki síður upp á einstaka upplifun á hvaða árstíma sem er. Á leiðinni má virða fyrir sér Hundafoss og Magnúsarfoss, frá Sjónarskeri er ústýni vítt til allra átta í góðu skyggni og gamli torfbærinn í Seli færir göngufólk til fyrri tíma búsetu í Skaftafelli.
Yfirborð göngustíga á þessari leið er að mestu leiti vel þjappaður jarðvegur eða mottur. Stígar eru að jafnaði það breiðir að 2-3 einstaklingar geta gengið hlið við hlið. Vert er að benda á að leiðin liggur upp í Skaftafellsheiðina og hækkun er alls um 250 m. Á leiðinni er töluvert af timburtröppum og pöllum, steinþrepum og járntröppum. Að sumri til í vætutíð getur yfirborð gönguleiðar orðið hált. Að vetri til getur leiðin verið mjög hál og/eða undir fönn. Göngufólki er bent á að leiðin getur verið krefjandi þeim sem eru fótalúnir eða við slæma heilsu.
Frá Skaftafellsstofu er gengið í gegnum tjaldsvæðið og stígurinn liggur upp í hæðina fyrir miðju tjaldsvæðisins. . Þaðan liggur leiðin áfram ofan Gömlutúna og farið er yfir Eystragil á göngubrú. Áfram er haldið framhjá Hundafossi og enn ofar er komið að Magnúsarfossi. Þaðan er haldið áfram upp uns komið er að hæð nokkurri sem af fæst gott útsýni til Svartafoss. Áfram er svo gengið niður í gilið þar til komið er að fossinum.
Frá Svartafossi er gengið yfir Stóralæk á göngubrú og upp úr Bæjargili að vestanverðu. Á gatnamótum er gengið til hægri upp að útsýnisskífu á Sjónarskeri.
Gengið er til baka að gatnamótum, en í stað þess að beygja að Svartafossi er haldið beina leið áfram. Þá er komið að gömlum veg sem liggur upp á heiðina og var áður nýttur vegna heyskapar. Veginum er fylgt niður að Seli.
Frá Seli er gengið eftir veginum til austurs þar til komið er að Bæjargili. Þar er tilvalið að skoða gömlu rafstöðina við Magnúsarfoss. Síðan er gengið eftir þröngum stíg niður í gegn hjá Lambhaga og þaðan heim að Skaftafellsstofu.
Tengdar gönguleiðir
Svartifoss - Sjónarnípa
Helstu kostir þessarar leiðar eru glæsilegt útsýni til Kristínartinda, Hrútfjallstinda og Öræfajökuls og eftir því sem nær dregur opnast Skaftafellsjökull fyrir göngufólki. Viðkoma við stuðlabergsprýddan Svartafoss setur svo punktinn yfir i-ið. Á vorin og snemmsumars er ríkulegt fuglalíf á leiðinni sem vert er að njóta á sama tíma og tekið er tillit til hreiðurgerðar og uppeldisstarfa.
Skaftafellsheiði
Ganga um Skaftafellsheiðina býður upp á krefjandi en áhugaverða göngu um fjölbreytt landslag; gróskumikinn birkiskóg, mela og fjallaskriður með skriðjöklana Morsárjökul og Skaftafellsjökul sitthvoru megin heiðarinnar og flatan Skeiðarársand í suðri.
Sjónarnípa
Helstu kostir þessarar leiðar eru glæsilegt útsýni til Kristínartinda, Hrútfjallstinda og Öræfajökuls og eftir því sem nær dregur opnast Skaftafellsjökull fyrir göngufólki. Á vorin og snemmsumars má einnig eiga von á ríkulegu fuglalífi.
Morsárjökull
Morsárjökull er formfagur, tvískiptur skriðjökull. Neðri hluti skriðjökulsins er fóðraður af falli íss niður þverhnípta hamra þar sem einnig myndast oft fossar sem eru með þeim hæstu á landinu. Í hlýju veðri má oft heyra drunur og bresti langar leiðir þegar fannir og ísflikki steypast fram af hamrastálinu í háum jökulfossi. Ofan á jöklinum má ennþá sjá ummerki gífurlegrar bergskriðu sem féll á jökulinn árið 2007.
Kjós
Kjós er litskrúðugur fjallasalur með um 1000 metra háum skriðu- og hamraveggjum. Á norðurbrún Kjósarinnar rís hinn sérkennilegi tindur Þumall sem talinn er vera um tveggja milljón ára gamall gígtappi. Lagskipt litskrúð ber vott um nálægð við mikla eldstöð en landslagið er dæmigert roflandslag.