Skaftafell
Um Skaftafell
- Komdu í heimsókn
Um Skaftafell
- Komdu í heimsókn
Hluti jarðarinnar Skaftafells var friðlýst sem þjóðgarður árið 1967 og hefur frá 2008 verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Náttúrufegurð, veðurskilyrði, úrval gönguleiða og góð þjónusta gera Skaftafell að kjöráfangastað þeirra sem vilja njóta útivistar í íslenskri náttúru. Allir eiga að geta fundið leið við sitt hæfi. Stuttar og auðveldar leiðir liggja að Svartafossi og Skaftafellsjökli, en fyrir þá sem vilja fara lengra eru Morsárdalur, Skaftafellsheiði og Kristínartindar helstu áfangastaðir. Við Sandfell í Öræfum má finna Háöldu sem friðlýst var sem náttúruvætti árið 1975 og þar hefst einnig gönguleið á hæsta tind landsins, Hvannadalshnjúk.
Aðgengi og þjónusta
Gott aðgengi er að Skaftafelli eftir þjóðvegi 1. Næstu þéttbýli eru Kirkjubæjarklaustur, 70 km til vesturs og Höfn, 130 km til austurs. Svæðið er aðgengilegt allt árið um kring svo lengi sem færð og veður leyfir. Utan sumarmánaðanna geta aðstæður breyst hratt og nauðsynlegt að leita upplýsinga fyrir heimsókn. Skaftafell er paradís göngufólks og allir eiga að geta fundið leið við sitt hæfi. Í Skaftafelli er fyrirtaks tjaldsvæði sem opið er allt árið um kring. Vatnssalerni eru á svæðinu ásamt fjölbreyttri árstíðabundinni ferðaþjónustu og einkareknum veitingasölum.
Fræðsla og upplýsingagjöf
Landverðir sinna eftirliti, fræðslu og upplýsingagjöf á svæðinu allt árið um kring. Rík og löng hefð er fyrir skipulagðri fræðsludagskrá landvarða í Skaftafelli yfir sumarið. Skaftafellsstofa er opin allt árið um kring. Fyrir framan Skaftafellsstofu er fræðslutorg þar sem lögð er áhersla á góða upplýsingagjöf um svæðið ásamt því að fræða um hið einstaka samspil mannvistar og náttúru í Skaftafelli og áhrif loftlagsbreytinga á mannlíf og umhverfið. Þrjár gestagötur eru í Skaftafelli sem segja frá náttúru og/eða menningu svæðisins.
Fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs er í gildi yfir sumarið þar sem boðið er uppá fjölbreyttar göngur vítt og breitt um þjóðgarðinn. Hægt er að kynna sér fræðslugöngur sumarsins í Skaftafelli með því að ýta á hlekkinn.
Skaftafellsstofa
Gestastofan í Skaftafelli er opin allan ársins hring. Það veita landverðir og þjónustufulltrúar gestum fræðslu og upplýsingar um náttúrufar Skaftafells, gönguleiðir, gistingu og afþreyingu í næsta nágrenni. Þar er einnig verslun með bækur, póstkort og handverk. Lögð er áhersla á íslenskar vörur og muni sem tengjast byggðarlaginu.
Tjaldsvæðið í Skaftafelli
Tjaldsvæði hefur verið í Skaftafelli allt frá árdögum Skaftafellsþjóðgarðs. Fyrstu árin var tjaldað uppi í brekkunum, nálægt bænum Bölta. Fljótlega var jökulaurinn við brekkurætur græddur upp og þar hefur verið stórt og rúmgott tjaldsvæði frá árinu 1974. Nú eru þar stæði fyrir húsbíla, ferðavagna og tjöld ásamt margskonar þjónustu allt árið um kring.
Náttúra og saga
- fræðsla og uppgötvun
Náttúra og saga
- fræðsla og uppgötvun
Skaftafellsland er mótað af rofi jökla og vatns. Skriðjöklar setja svip sinn á landið og Skeiðará, Morsá og Skaftafellsá renna frá samnefndum jöklum. Skeiðará er þeirra mest og var mikill farartálmi þar til hún var brúuð árið 1974. Kunnust er hún vegna Skeiðarárhlaupa sem eiga upptök sín í Grímsvötnum, ýmist vegna eldvirkni eða jarðhita. Árið 1362 gaus Öræfajökull mesta vikurgosi sem orðið hefur á Íslandi síðan sögur hófust og eyddi byggð í Öræfasveit. Sveitin fékk þá nafnið Öræfi en hét áður Litla Hérað. Öræfajökull gaus aftur árið 1727.
Veðursæld og gróska
Veðursæld í Skaftafelli er mikil og oft er betra veður þar í skjóli Öræfajökuls en í nágrenninu. Gróðurfar er fjölbreytt í Skaftafelli, neðanverðar hlíðar eru vaxnar birkiskógi, sums staðar vex reyniviður innan um og botngróður er gróskumikill. Í Bæjarstaðarskógi verður birki hávaxnara en víðast hvar á landinu. Bláklukka, gullsteinbrjótur, og klettafrú, sem eru meðal einkennistegunda Austurlands, finnast víða í Skaftafelli. Gróðurfar hefur tekið miklum breytingum eftir að þjóðgarðurinn var friðaður, bæði að magni og umfangi.
Frá heimili að heimsminjum
Skaftafell var stórbýli og þingstaður til forna. Snemma á öldum var staðurinn kirkjujörð og síðar konungsjörð. Jörðin var landstór og náði land hennar frá sjó og upp á miðjan Vatnajökul. Sívaxandi ágangur Skeiðarár eyddi ræktarlandi á sléttlendi og um miðja 19. öld fluttu Skaftafellsbændur hús og ræktarlönd upp í hlíðar Skaftafells. Brattlendið hentaði vélvæddum landbúnaðartækjum hins vegar illa og um miðja 20. öld var þessi kostajörð ekki lengur eins vel fallin til búskapar og áður. Árið 1960 kom fram tillaga um að friðlýsa Skaftafell sem þjóðgarð. Þjóðgarður í Skaftafelli var síðan formlega stofnaður 15. september 1967 og var Ragnar Stefánsson bóndi í Hæðum í Skaftafelli fyrsti þjóðgarðsvörðurinn. Þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður þann 7. júní 2008 rann þjóðgarðurinn í Skaftafelli saman við hinn nýstofnaða þjóðgarð og árið 2019 var svæðið skráð á heimsminjaskrá UNESCO.