Beint í efni
Jökulsárgljúfur, Dettifoss, vestan, vor

Dettifoss

Dettifoss er talinn öflugasti foss Evrópu. Ógnarkraftinn má finna með því að leggja lófa við klappir nálægt fossinum og finna hvernig bjargið titrar. Fossinn er 44-45 m hár og um 100 m breiður.
Ísland er ungt land í jarðfræðilegum skilningi. Einkenni þessa unga lands eru meðal annars margir fossar sem enn hafa ekki náð að afmá stalla í farvegi sínum. Í Jökulsá á Fjöllum er einstök og heillandi fossaröð en fossarnir breytast smám saman, eða jafnvel hverfa, eins og fossum er eðlislægt að gera. Ofan Dettifoss er Selfoss, 10 m hár, og neðan hans er Hafragilsfoss, 27 m hár.

Salerni
Bílastæði
Næturgisting óheimil

Komast má að Dettifossi bæði að austanverðu og vestanverðu og beggja vegin eru merktar gönguleiðir. Hvorum megin sem komið er að fossinum, verður að fara með gát. Að vestanverðu er komið eftir malbikuðum vegi númer 862 sem liggur milli Mývatnsöræfa og Kelduhverfis. Athuga þarf að vegurinn er í takmarkaðri vetrarþjónustu og best að fylgjast með aðstæðum á vef Vegagerðarinnar. Að austanverðu er hægt að komast að fossinum eftir malarvegi 864. Sá vegur er seinfarinn og lokast þegar snjóa fer á haustin. Opnun að vori fer eftir aðstæðum hverju sinni og er háð því að aurbleyta þorni.

Jökulsárgljúfur eru þrengst, um 100 m breið, á stuttum kafla norðan við Dettifoss. Þessi þröngi, 500m langi bútur er verk Dettifoss, sem grafið hefur í landið með sínu daglega nuddi frá lokum hamfarahlaupanna. Stóru gljúfrin sáu hamfarahlaupin og jökulsá um að móta á síðustu árþúsundum.

Hugmyndir voru uppi um virkjun vatnsaflsins í gljúfrunum, en þær strönduðu á því að hraunlögin eru of gropin til að halda vatni í uppistöðulóni. Á austurbarmi Jökulsárgljúfra nálægt Hafragilsfossi er þversnið í gíg á gossprungu sem kennd er við Randarhóla.

Fræðsla

Gönguleiðir við Dettifoss vestanverðan

D1

Dettifoss

1,5 km fram og til baka
0,5-1 klst
Auðveld

Dettifoss er kraftmesti foss Evrópu. Ógnarkraftinn má finna með því að leggja lófa við klappir nálægt fossinum og finna hvernig bjargið titrar. Hægt og bítandi grefur hann sig í gegnum fossbrúnina og færir þannig sjálfan sig sífellt sunnar eða um hálfan meter á ári.
Frá bílastæðinu að útsýnisstað við Dettifoss er um 1 km ganga (aðra leið). Þaðan er hægt að ganga sömu leið tilbaka á bílastæðið.

D2
Jökulsárgljúfur, Selfoss

Dettifoss og Selfoss

2,5 km hringleið
1 klst
Auðveld

Andstæður eru eitt aðaleinkenni landlagsins í Jökulsárgljúfrum. Á þessari gönguleið kemur þetta skýrt fram í kraftmesta fossi Evrópu, Dettifoss, andspænis fagurmótuðum og hógværum Selfossi. Gengið er að Dettfossi en í stað þess að fara sömu leið til baka eins og í leið D-1 er hér gengið í suður, meðfram árbakkanum, að Selfossi og síðan farin vestari leiðina tilbaka að bílastæðinu.

D3
Jökulsárgljúfur, Fossvogur, Hafragilsundirlendi

Hafragilsundirlendi

9 km hringleið
4 klst
Erfið

Í og við Hafragilsundirlendi eru erfiðustu en jafnframt stórkostlegustu gönguleiðir Jökulságljúfra og þar þarf að fara með gát. Gengið er um brattar skriður og einstigi sem hentar ekki lofthræddum. Óvíða kallast á meiri andstæður en á þessum stað, þar sem blátt bergvatn blandast gruggugu jökulfljótinu

L1, L2, L3

Ásbyrgi - Dettifoss

32 km ein leið
2 dagar
Krefjandi leið

Milli Ásbyrgis og Dettifoss liggur um 32 km gönguleið eftir Jökulsárgljúfrum. Fjölbreytileiki landslagsins er einstakur og andstæður í umhverfinu fanga augað við hvert fótspor: hrikaleg gljúfur, kyrrlátar tjarnir, tærar lindir, úfin jökulsá, gróskumikill skógur og grýttur melur.
Það þarf að ætla sér tvo daga í gönguna og þá er miðað við náttstað í Vesturdal. Einungis er leyft að tjalda á tjaldsvæði í Vesturdal og við Dettifoss.