Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna
Jökulsárgljúfur, Ásbyrgi, útsýni, Klappir

Ásbyrgi

Skeifulaga kvosin Ásbyrgi er einstök náttúrusmíð og tekur vel á móti fjölbreyttum hópi gesta. Þar er Gljúfrastofa, gestastofa Jökulsárgljúfra, stórt tjaldsvæði með góðri þjónustu, fjölbreyttar gönguleiðir og tækifæri til náttúruupplifunar.

Hamraþil Ásbyrgis ná allt að 100m hæð innst í gljúfrinu þar sem undir hvílir Botnstjörn með mikilli grósku allt um kring. Ásbyrgi er 3,5 km langt og um 1,1 km breitt. Í miðju þess er standberg, Eyjan, sem er allt að 250 m breið. Byrgið er skógi vaxið, einkum birki og víðir auk reynis og nokkur þúsund barrtré voru gróðursett þar og dafna vel. Fýllinn verpir í þvernhníptum hömrunum en aðrir fuglar í trjáreitum og móum.

Talið er að Ásbyrgi hafi myndast við að minnsta kosti tvö hamfarahlaup úr norðanverðum Vatnajökli, annað fyrir 8-10 þúsund árum en hið síðara fyrir u.þ.b. 3 þúsund árum. Síðan hefur Jökulsá fært sig til austurs. Þjóðsagan segir að hinn áttfætti hestur Óðins, Sleipnir, hafi stigið þar niður fæti þegar goðið var á yfirreið.

Fræðsla

Gönguleiðir í Ásbyrgi

Á1
Botnstjörn, Ásbyrgi, haust

Botnstjörn

1 km hringleið
30 mín.
Aðgengileg flestum

Ásbyrgi heillar margan ferðalanginn. Innst í byrginu er gengið um gróskumikinn birkiskóg, umvafinn hamrabeltinu, og fyrir botni hvílir friðsæl Botnstjörn sem er heimkynni rauðhöfðaanda á sumrin. Margir finna ákveðna helgi hvíla yfir staðnum og telja jafnvel að þar séu híbýli álfa og huldufólks. Botnstjörn er gamall fosshylur og eitt af ummerkjum sem hamfaraflóðin hafa skilið eftir. Á vorin og í vætutíð kemur fyrir að ofaní tjörnina seitli Botnslækur.

Á10
íslenskt birki

Blómastígur - Gestagata

0,5 km
0,5 klst
Auðveld

Viltu skoða blómin? - Blómastígur liggur um birkiskóginn í Ásbyrgi, með viðkomu í grenilundi. Leiðin, sem er um hálfur kílómetri, liggur eftir greiðfærum stíg með upphafs- og endaskilti ásamt þrettán litlum skiltum þar sem fjallað er um blómplöntur, fléttur og sveppi sem sjást á leiðinni. Viðfangsefni stígsins er nýting plantna og þjóðtrú í tengslum við plöntur.

Á2

Eyjan í Ásbyrgi

4,5 km fram og til baka
1,5-2 klst
Auðveld

Eyjan sendur hnarreist í miðju Ásbyrgi, voldugur klettadrangur sem hefur staðið af sér ógnarkrafta hamfarahlaupanna. Frá Eyjunni er afar fallegt útsýni yfir Ásbyrgi og ekki síður yfir sandana í norðri. Það er upplagt að ganga þessa leið að kvöldlagi.

Á3

Skógarstígur

4 km önnur leið
1-2 klst
Auðveld

Á göngu eftir skógarstígnum í Ásbyrgi má upplifa friðsæld og fjölbreytt fuglalíf skógarins. Á árunum 1947-1977 var barrtrjám plantað í Ásbyrgi og liggur stígurinn um helstu skógræktarreitina frá þeim tíma. Einnig umvefur hinn náttúrulegi birkiskógur Ásbyrgis ferðafólk.

Á4
Jökulsárgljúfur, Ásbyrgi, Undir Eyjunni, gönguleið

Undir Eyjunni

3,5 km önnur leið
1-1,5 klst
Auðveld

Þessi leið hefst í suðvesturhorni tjaldsvæðisins í Ásbyrgi. Í hamraveggjum Eyjunnar má sjá hin ýmsu form býkúpuveðrunar og mögulega hrafnslaupa en svo kallast hreiður krumma. Þegar komið er suður fyrir Eyjuendann er gengið milli þingeyskra stórþúfna og um mólendi þar sem fylgjast má með lífríkinu. Hægt er að gera hringleið úr þessari leið með því að fara leið Á-3, Skógarstíginn, til baka.

Á5
Jökulsárgljúfur, ertur,býfluga

Áshöfðahringur (í kringum höfðann)

7,5 km hringleið
2-3 klst
Krefjandi

Áshöfðinn er skógiklæddur höfði austan við Ásbyrgi. Gönguleiðin býður upp á fjölbreytta náttúruupplifun. Fuglalíf er fjölbreytt í vötnum, votlendi, mó og kjarri og gengið er um fjölbreytt landslagi, um gil og gljúfur, framhjá tjörnum og jökulám.

Á6
Jökulsárgljúfur, Áshöfði, gönguleið

Áshöfðahringur (yfir höfðann)

7 km hringleið
2-3 klst
Krefjandi

Áshöfðinn er skógiklæddur höfði austan við Ásbyrgi. Gönguleiðin býður upp á fjölbreytta náttúruupplifun. Fuglalíf er fjölbreytt í vötnum, votlendi, mó og kjarri og gengið er um fjölbreytt landslagi, um gil og gljúfur, framhjá tjörnum og jökulám. Gönguleiðin hefst við Gljúfrastofu í Ásbyrgi.

Á7
Jökulsárgljúfur, Ásbyrgi, Klappir

Klappir

9 km fram og til baka
2,5-3 klst
Krefjandi

Leiðin býður upp á stórkoslegt útsýni yfir Ásbyrgi og stórbrotna skessukatla í Klöppum. Upphaf þessarar gönguleiðar er hið sama og leið Á-8 og er því vísað til leiðarlýsingar þar. Hér er hins vegar snúið við á Klöppum og sama leið gengin til baka.

Á8
Ásbyrgi

Kúahvammshringur

12 km hringleið
4-5 klst
Krefjandi

Þessi gönguleið býður upp á stórfenglegt útsýni yfir Ásbyrgi og nyrðri hluta Jökulsárgljúfra. Í Klöppum eru einstakir skessukatlar og ummerki hamfaraflóða.

Á9

Kvíahringur

17 km hringleið
6-7 klst
Krefjandi

Hér gefst færi á heilsdagsgöngu um fjölbreytt landslag Ásbyrgis og Ásheiðar þar sem upplifa má stórkostlegt útsýni og sjá einstakar minjar um hamfarahlaup Jökulsár.

L1, L2, L3

Ásbyrgi - Dettifoss

32 km ein leið
2 dagar
Krefjandi leið

Milli Ásbyrgis og Dettifoss liggur um 32 km gönguleið eftir Jökulsárgljúfrum. Fjölbreytileiki landslagsins er einstakur og andstæður í umhverfinu fanga augað við hvert fótspor: hrikaleg gljúfur, kyrrlátar tjarnir, tærar lindir, úfin jökulsá, gróskumikill skógur og grýttur melur.
Það þarf að ætla sér tvo daga í gönguna og þá er miðað við náttstað í Vesturdal. Einungis er leyft að tjalda á tjaldsvæði í Vesturdal og við Dettifoss.