Alþjóðlegur dagur barnsins
Á Alþjóðlegum degi barna í dag kynnum við þróunar- og samstarfsverkefnið Eldur, ís og mjúkur mosi.
Á Alþjóðlegum degi barna í dag kynnum við þróunar- og samstarfsverkefnið Eldur, ís og mjúkur mosi.
Verkefnið vinna Vatnajökulsþjóðgarður og Náttúruminjasafn Íslands í samstarfi við átta grunn- og leikskóla í nágrenni við þjóðgarðinn ásamt einum á höfuðborgarsvæðinu og breiðum hóp listafólks og hönnuða í heimabyggð skólanna. Markmið verkefnisins er að skapa tengingar milli barna og náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs sem er verndaður sem sameign þjóðarinnar og þau ýmist búa í nálægð við eða þekkja til. Börnin vinna því fjölbreytt verkefni þar sem þau segja frá honum og túlka náttúru, verndargildi og sögu í gegnum list og skapandi ferli.
Smiðjur innblásnar af fjölbreyttri náttúru og sögu eru þegar farnar af stað í flestum skólunum og nemendur munu í vetur þróa listaverk sem koma svo öll saman á samsýningu skólanna í sýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar á Barnamenningarhátíð í vor.
Auk samsýningarinnar verða sýningar og viðburðir í heimabyggðum skólanna, í gestastofum þjóðgarðsins og menningarhúsum.
Áhersla er lögð á að nemendur vinni út frá sínu áhugasviði, endurnýtingu og með spennandi efni og aðferðir.
Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands.