Auglýst er eftir umsóknum um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði
Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir eftir umsóknum frá rekstraraðilum sem óska eftir að bjóða upp á íshellaferðir og/eða jöklagöngur í atvinnuskyni á eftirfarandi jöklum frá 1. október 2024 til 30. september 2027.
Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir eftir umsóknum frá rekstraraðilum sem óska eftir að bjóða upp á íshellaferðir og/eða jöklagöngur í atvinnuskyni á eftirfarandi jöklum frá 1. október 2024 til 30. september 2027:
- Breiðamerkurjökull austur.
- Breiðamerkurjökull vestur.
- Falljökull/Virkisjökull.
- Skeiðarárjökull.
Samkvæmt 15. gr. a laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007 er óheimilt að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð, sbr. einnig V. kafla reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.
Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir eftir umsóknum frá þeim rekstraraðilum sem bjóða vilja upp á íshellaferðir og/eða jöklagöngur í atvinnuskyni á framangreindum jöklum. Gerðir verða rekstrarleyfissamningar samkvæmt lögum um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni nr. 100/2021 og 15. gr. a laga um Vatnajökulsþjóðgarð við þá umsækjendur sem uppfylla tilgreind skilyrði. Hægt er að sækja um heimild til rekstrar á fleiri en einu svæði. Samningarnir munu gilda í þrjú ár, eða til 30. september 2027.
Skilyrði sem rekstraraðilar þurfa að uppfylla og sýna fram á í umsóknargögnum eru eftirfarandi:
- Hafa í gildi leyfi Ferðamálastofu sem ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða, sbr. lög nr. 96/2018 um Ferðamálastofu. Umsækjandi skal vera handhafi leyfisins.
- Hafa í gildi ábyrgðartryggingu samkvæmt lögum um Ferðamálastofu.
- Hafa sett sér ítarlega umhverfis- og sjálfbærnistefnu og markmið um að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar. Stefnan skal ná til náttúru þjóðgarðsins og tryggja að hún verði ekki fyrir skemmdum af völdum starfseminna og þarf að lágmarki að innihalda eftirfarandi þætti:
- Markmið um lágmörkun umhverfisáhrifa
- Aðgerðaráætlun um framfarir
- Mælitæki um árangur
- Ábyrgðaraðilar
- Vera með skriflegar, gildar öryggisáætlanir sem ná yfir allar ferðir rekstraraðila á viðkomandi svæði, sbr. IV kafla laga nr.69/2018 um Ferðamálastofu. Öryggisáætlanirnar skulu vera í samræmi við eðli starfseminnar og tryggja að öryggi gesta í ferðum rekstraraðilans verði fullnægjandi.
Aðferðir við mat á áhættu í íshellum í Vatnajökulsþjóðgarði má nálgast hér.
Vatnajökulsþjóðgarður hvetur umsækjendur til að vera með vottun Vakans eða sambærilega vottun.
Í samningsskilmálum er gert ráð fyrir að rekstraraðilar skuldbindi sig til að taka þátt í rannsókn á þolmörkum viðkomandi svæðis. Jafnframt er gert ráð fyrir að rekstraraðilar taki þátt í að bæta aðgengi á einstökum áfangastöðum á jökli með tilliti til öryggis gesta og verndar umhverfis. Vatnajökulsþjóðgarður hvetur samningsaðila til samráðs um góða nýtingu svæðisins í ljósi sjálfbærni og umhverfisáhrifa.
Við undirritun samnings greiðir umsækjandi 100.000 kr. umsýslugjald vegna móttöku umsóknar, málsmeðferðar og samningsgerðar, sbr. reglugerð nr. 1580/2023 um gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu.
Jafnframt skulu þeir rekstraraðilar sem fá heimild til ferða á Breiðamerkurjökul (austur og vestur) og Falljökul/Virkisjökul greiða allan samningstímann mánaðarlegt veltugjald á grundvelli ákvæða laga um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni . Veltugjaldið reiknast á hvern viðskiptavin fyrirtækis sem fer í íshellaferð og/eða jöklagöngu á þessum svæðum. Veturinn 2024-2025 verður innheimt veltugjald 100 kr.- á hvern gest, en frá vetrinum 2025-2026 verður innheimt veltugjald 200 kr.- á hvern gest.
Allar þær sértekjur sem aflað er með innheimtu veltugjalds verða nýttar til þeirra þátta sem snúa að umræddri atvinnustarfsemi, s.s. vegna viðgerða og viðhalds á vegum að jökli, vernd umhverfis, öryggis og þjónustu við gesti.
Nánari upplýsingar um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði og verklagsreglur um afgreiðslu umsókna má nálgast á vef Vatnajökulsþjóðgarðs www.vatnajokulsthjodgardur.is. Sjá einnig www.vakinn.is og www.ferdamalastofa.is. Einnig má senda fyrirspurn á póstfangið [email protected].
Umsóknum ásamt fylgigögnum skal skilað í gegnum þjónustugátt Vatnajökulsþjóðgarðs (eyðublað 109) eigi síðar en 1. september 2024.
Þeir umsækjendur sem hyggjast hefja starfsemina síðar en 1. október 2024 skulu senda inn umsókn a.m.k. 30 dögum áður en áætlað er að starfsemi hefjist. Vatnajökulsþjóðgarður áskilur sér rétt til að vísa frá öllum umsóknum eða hafna einstökum umsóknum uppfylli þær ekki skilyrði sem tilgreind eru í auglýsingu þessari og/eða ef fullnægjandi gögn fylgja ekki umsókn, sbr. 2. mgr. 35. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.