Breytingar staðfestar á stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs (3. útgáfa), að tillögu stjórnar þjóðgarðsins.
Breytingarnar, sem gerðar eru samkvæmt ákvörðun stjórnar, fjalla um afmörkuð atriði er aðallega snúa að uppfærslu texta og korta vegna lagabreytinga og stækkana þjóðgarðsins. Þar eru þó einnig gerðar nokkrar minniháttar en brýnar breytingar t.d. er varða lendingar loftfara, tjöldun, þjónustusvæði, vegi og gönguleiðir.
Þjóðgarðurinn hyggst í auknum mæli fara þá leið að taka fyrir afmörkuð viðfangsefni stjórnunar- og verndaráætlunar og skapa þannig svigrúm til vandaðrar gagnaöflunar og aukins samráðs um einstaka þætti. Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir 15% af landinu og mikilvægt að ákvarðanataka fái það rými og þá umræðu sem nauðsynleg er til að hlúa að verndun gæðanna, á sama tíma og þeirra er notið og þau eru nýtt á forsendum sjálfbærni.
Breytingin sem nú hefur verið staðfest er til marks um þessa nýju aðferðarfræði.
Önnur slík afmörkuð breytingartillaga sem verið hefur í vinnslu af hálfu þjóðgarðsins síðustu mánuði fjallar um veiðar á austursvæði. Að auki er unnið að fjórum nýjum viðaukum við stjórnunar- og verndaráætlun vegna stækkana þjóðgarðsins á síðustu árum. Þá hefur staðið yfir vinna við framtíðarskipulag náttúruverndar og innviða innan landslagsheildarinnar í Vonarskarði í samræmi við tilmæli þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar og er unnið að lausn málsins. Loks má nefna að í haust er gert ráð fyrir því af hálfu þjóðgarðsins að hefja umræðu og gagnaöflun m.a. um svæðaskiptingu innan þjóðgarðs með tilliti til verndunar og ólíkrar nýtingar og um hjólreiðar innan þjóðgarðs.