Meirihluti áfangastaða innan Vatnajökulsþjóðgarðs fá græna einkunn 2021
Annað árið í röð hefur Vatnajökulsþjóðgarður unnið mat á ástandi áfangastaða í samvinnu við Umhverfisstofnun og Þjóðgarðinn á Þingvöllum. Alls voru teknir út 148 áfangastaðir og þar af voru 24 innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Átján áfangastaðir innan Vatnajökulsþjóðgarðs, eða 75% staðanna, fengu 8 eða hærra í heildareinkunn og teljast því grænir áfangastaðir sem standa sig vel. Árið 2020 voru 65% áfangastaða Vatnajökulsþjóðgarðs með græna einkunn.
Umhverfisstofnun hefur unnið mat á ástandi áfangastaða friðlýstra svæða frá árinu 2016 og frá 2020 hefur það verið unnið með Vatnajökulsþjóðgarði og Þjóðgarðinum á Þingvöllum. Matið er stöðugt í þróun en lögð er áhersla á að þetta verkfæri leggi hlutlægt mat á verndarsvæði, sé samanburðarhæft milli svæða og gefi til kynna hvort ástand svæða fari batnandi eða versnandi milli ára. Þrír meginþætti eru metnir: Skipulag, innviðir og verðmæti. Gefin er einkunn fyrir hvern þátt og síðan heildareinkunn allra þriggja þáttanna.
Þeir áfangastaðir sem lagt var mat á innan Vatnajökulsþjóðgarðs 2021 voru eftirfarandi:
Norðausturland: Botnstjörn í Ásbyrgi, Dettifoss að austanverðu, Dettifoss að vestanverðu, Hljóðaklettar.
Miðhálendið: Askja, Drekagil, Eldgjá, Herðubreiðarlindir, Holuhraun, Hvannalindir, Laki, Langisjór, Snæfell gönguleið, Tjarnargígur.
Suðurland: Fjallsárlón, Háalda, Jökulsárlón, Námuvegur, Sel, Skaftafell tjaldsvæði, Skaftafell þjónustukjarni, Skaftafellsjökull, Svartifoss, Þröng.
Einn nýr áfangastaður bættist við matið frá því árið 2020, Háalda á Suðurlandi. Háalda varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði með tilkomu hluta af ríkisjörðinni Sandfelli inn í þjóðgarðinn sumarið 2021.
„Ástandismatið er tól sem hjálpar okkar að greina ástand helstu áfangastaða innan þjóðgarðsins og er mjög hvetjandi fyrir okkur til að bæta þá”, segja þau Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum og Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðgarðsvörður á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.
Samanburður milli ára
Einn áfangastaður innan Vatnajökulsþjóðgarðs fékk lægra en fimm í einkunn og fer á rauðan lista. Um er að ræða svokallaðan Námuveg á Breiðamerkursandi sem varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði árið 2017. Vegurinn var líka eini staðurinn inn Vatnajökulsþjóðgarðs á rauðum lista í matinu árið 2020. Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið var samþykkt í júlí 2021. Þar er gert ráð fyrir því að þessi vegur verði fær flestum farartækjum að áfangastað við Breiðárlón.
Hafa skal í huga að verkfærið er hannað til að leggja mat á ástand svæða sem eru undir álagi vegna gestasóknar. Með verkfærinu er gestaálag metið og lagðar til leiðir til úrbóta.