Beint í efni

,,Jöklar á Íslandi hafa minnkað um 19% að flatarmáli“

Fjórða samantektarskýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar var birt þann 18. október

18. október 2023
Efri mynd sýnir Skaftafellsjökul og Svínafellsjökul einhverntímann á árunum 1920–1925 (ljósmynd: Ólafur Magnússon). Neðri myndin sýnir sömu jökla árið 2012 (ljósmynd: Aron Reynisson), jöklarnir slitnuðu hvor frá öðrum í kringum 1940. (Myndir fengnar af www.loftslagsbreytingar.is)

Skýrslan fjallar um umfang og afleiðingar hnattrænna loftslagsbreytinga og áhrif þeirra á Íslandi. Í ágripi skýrslunnar kemur fram að hún staðfesti að breytingar á náttúrufari og lífsskilyrðum fólks hér á landi séu byrjaðar af völdum loftslagsbreytinga. Þetta hefur í för með sér vaxandi áskoranir fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Draga þurfi úr losun eins hratt og unnt er ásamt því að aðlaga samfélagið að þeim breytingum sem því fylgir svo það ráði við álagið.

Í skýrslunni kemur fram að gera megi ráð fyrir að breytingar á veðurfari og náttúrufarsaðstæðum á landi og sjó verði í lok aldarinnar án fordæma frá upphafi byggðar á Íslandi.

,,Jöklar á Íslandi hafa minnkað um 19% að flatarmáli frá þeim tíma sem þeir náðu mestri útbreiðslu undir lok 19. aldar. Heldur hefur hægt á rýrnun þeirra eftir 2010. Nokkrir jöklar hafa horfið alveg og vegna hörfunar jökla stækka jaðarlón og ný myndast. Framtíð jökla landsins er mjög háð þróun loftslags og sjávarhita umhverfis landið. Útreikningar byggðir á sviðsmyndum um loftslagsbreytingar benda til þess að haldi Parísarsamningurinn muni rýrnun þeirra samt verða um 40–50%. Rýrnun jökla verður meiri takist ekki að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamninginn segir í skýrslunni.

After Ice

Hér er hægt að horfa á myndina 'After Ice' eftir Kieran Baxter þar sem sjá má þær breytingar sem hafa orðið á jöklunum á síðastliðnum áratugum.