Beint í efni

Varða – Afrakstur vinnustofu á Breiðamerkursandi

Í september síðastliðnum var haldin vinnustofa á Breiðamerkursandi á vegum Vörðu verkefnisins. Afrakstur þessarar vinnustofu var skjal með hugmyndum og ráðleggingum franskra ráðgjafa í vinnustofunni. Varða er samstarfsverkefni á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. 21. apríl 2021 tilkynnti þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, aðJökulsárlón yrði einn af fjórum fyrstu Vörðu stöðum Íslands.

7. febrúar 2022

Vörður eru merkisstaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir. Auk Jökulsárlóns eru Þingvellir, Gullfoss og Geysir með í verkefninu.

Fulltrúar þeirra þriggja stofnana á bak við Vörðu staðina hafa síðustu mánuði tekið þátt í vinnu ásamt starfsfólki ráðuneytisins við að þróa verkefnið áfram. Í upphafi var gefið út stefnuskjal Vörðu, en skjalið tekur á þáttum sem varða uppbyggingu, þjónustu við gesti og upplifun þeirra, innviði og öryggismál Vörðu staða. Skjalið er lifandi, það er, það mun taka breytingum eftir því sem verkefnið þróast.

Í fyrstu úthlutun verkefnisins fékk Vatnajökulsþjóðgarður 75 m.kr. Fjármagnið skiptist niður á þrjú verkefni sem brýnt þótti að fara af stað með; (1) heimtaugar, búnað og undirbúning fyrir rafhleðslustöðvar í Eystri- og Vestari Fellsfjöru, (2) áningarstaðir og göngustígagerð, og (3) þolmarkarannsókn. Öll verkefnin eru í vinnslu og mun þeim ljúka á árinu 2022.

Fulltrúar ráðuneyta og franskir ráðgjafar á Jökulsárlóni

Í september s.l. var svo haldin vinnustofa, en þá heimsóttu Jökulsárlón fulltrúar ráðuneyta og allra vörðustaðanna, auk þriggja franskra ráðgjafa, með því markmiði að máta áfangastaðinn við hugmyndafræði og viðmið Vörðu (sjá mynd af þáttakendum í vinnustofu hér fyrir ofan). Heimsóknin heppnaðist afar vel. Breiðamerkursandur tók á móti þátttakendum með öllum tegundum af veðri, en allir voru sammála um að einstakt umhverfi lónanna, íssins í fjörunni, og samspils manns og náttúru væru helsta aðdráttarafl svæðisins og þyrfti að gera hátt undir höfði í framtíðar uppbyggingu.

Afrakstur þessarar vinnustofu var skjal með hugmyndum og ráðleggingum ráðgjafanna, en það ásamt stefnuskjali verkefnisins má finna á www.varda.is.

Einn frönsku ráðgjafanna, Alain Freytet, var iðinn við að teikna svæðið og ýmsar hugmyndir meðan á vinnustofunni stóð. Teikningar tvær sem fylgja þessari frétt eru báðar eftir Alain.

Vatnajökulsþjóðgarður & heimsmarkmiðin

Skipulag og uppbygging á Breiðamerkursandi tengist eftirfarandi heimsmarkmiðum:

3. Heilsa og vellíðan

6. Hreint vatn og hreinlætisaðstaða

8. Góð atvinna og hagvöxtur

9. Nýsköpun og uppbygging

11. Sjálfbærar borgir og samfélög

12. Ábyrg neysla og framleiðsla

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

15. Líf á Íslandi