Tómasarhagi - Fremri Hagajökull - Háhyrna
Krefjandi ganga upp frá Tómasarhaga á jökulöldur við Fremri Hagajökli og þaðan upp á topp Háhyrnu. Rétt áður en komið er að enda göngunnar að Fremri-Hagajökli eru gatnamót þar sem leiðin til suðurs (til hægri) liggur á Háhyrnu. Gangan er erfið. Á þessari leið er gjarnan snjór allt sumarið og því mikilvægt að vera vel búin. Þegar komið er upp á Háhyrnu er hægt að fara sömu leið til baka og leiðin er þá samtals um 11 km eða halda áfram í átt að bílastæði rétt norðan við Nýjadalsá og þá er gangan um 12 km og þaðan eru 3 km aftur að bílastæði í Tómasarhaga.
Tengdar gönguleiðir
Nýjadalsá - Háhyrna
Fyrst er gengið í átt að fjallinu Þvermóði og meðfram því norðanverðu. Þaðan tekur við krefjandi ganga upp brattar hlíðar. Leiðin getur verið varasöm í þoku eða úrkomu. Þegar komið er upp á Háhyrnu er hægt að fara sömu leið til baka eða halda áfram til norðurs og niður af fjallinu við Fremri-Hagajökul, þar til komið er á bílastæði í Tómasarhaga.Sú ganga er 5,5 km. Athugið að bílastæðið er 4 km norðar en Nýidalur.
Þvermóður
Upphaf göngunnar er við bílastæði nokkur hundruð metrum norðan við Nýjadalsána. Gengið í átt að norðurenda Þvermóðs (959 m.y.s.) og þar upp á hann. Leiðin liggur yfir fjallið og niður af því að suðaustanverðu og síðan meðfram því til vesturs og aftur að bílastæði. Þvermóður er lítill móbergshryggur í mynni Nýjadals. Þegar horft er af fjallinu til vesturs sér vel yfir Sprengisand að Hofsjökli. Í suðausturhlíð fjallsins er fallegur og fjölbreyttur háfjallagróður og þar er líka mjög fagurt útsýni inn yfir grösugan botn og litríkar hlíðar Nýjadals. Gott undirlag er á leiðinni og gangan er fjölskylduvæn og nokkuð auðveld.