Skip to content
  • Service web
  • Mapview
  • Search
  • Open

Ársskýrsla 2020

Vatnajökulsþjóðgarður á góðri leið

Vatnajökulsþjóðgarður er tólf ára gömul stofnun í stöðugri þróun. Þjóðgarðurinn nær til Vatnajökuls og stórra svæða í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðanna sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Sumarið 2019 var stigið mikilvægt skref í þróun þjóðgarðsins þegar hann var samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO sem staðfestir að hann er einstakur á heimsvísu.

Árið 2020 var þungt í skauti vegna COVID-19 heimsfaraldursins sem hafði gríðarleg áhrif á líf, störf og ferðalög fólks um allan heim. Áhrifin á Vatnajökulsþjóðgarð voru þau helst að um tíma þurfti að loka eða takmarka aðgengi að tjaldsvæðum vegna sóttvarnaraðgerða. Auk þess fækkaði erlendum gestum þjóðgarðsins mikið sem leiddi af sér mikla lækkun sértekna en þær byggjast m.a. á tekjum af tjaldsvæðum og svokölluðum svæðisgjöldum sem ferðamenn greiða. Íslendingum fjölgað á nokkrum áfangastöðum en sú aukning vóg aðeins að litlum hluta á móti sértekjulækkun vegna fækkunar erlendu gestanna. Vegna þessara aðstæðna kom umhverfis- og auðlindaráðuneytið að því með stofnuninni að tryggja aukin fjárframlög til að halda úti reglubundinni landvörslu og þjónustu á áfangastöðum Vatnajökulsþjóðgarðs og ber sérstaklega að þakka fyrir það. Vegna þessa var fjöldi starfsmanna hjá þjóðgarðinum mjög svipaður og árið áður sem var afar jákvætt fyrir allt starf stofnunarinnar.

Vatnajökulsþjóðgarði hefur frá upphafi verið ætlað að styrkja byggð og atvinnustarfsemi m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðanna. Vatnajökulsþjóðgarður er því vettvangur umfangsmikillar atvinnustarfsemi sem er ein forsenda þess að þjóðgarðurinn nái tilgangi sínum. Innleiðing atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs, sem tók gildi 2019, hófst með þróunarverkefni á suðursvæði þjóðgarðsins á árinu 2020. Um var að ræða samvinnu við fyrirtæki sem hafa kallað eftir skýrum leikreglum m.a. við stýringu á fjölda ferðamanna í íshellaferðum og jöklagöngum til að tryggja öryggi og góða upplifun. Í verkefninu hefur skapast mikilvæg reynsla og þekking og á þeim grunni verður haldið áfram að þróa aðferðir þar sem meginmarkmiðið er sjálfbær uppbygging atvinnustarfsemi í sátt við samfélagið og náttúruna.

Mikil uppbygging stendur nú yfir á innviðum innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs, svo sem á gestastofum, þjónustuhúsum, gönguleiðum, merkingum og brúm. Innviðir sem þessir skipta máli til að tryggja góða umgengni um þjóðgarðinn, verndun náttúru og til að auka ánægju og góða upplifun gesta.

Starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs gekk vel á árinu 2020 eins og ýmsir mælanlegir þættir sýna. Einn grundvallar mælikvarði er jákvæð niðurstaða ársreiknings síðustu þrjú árin og með 21 mkr afgangi fyrir árið 2020. Annar mikilvægur mælikvarði er starfsánægja, en á árinu 2020 lenti Vatnajökulsþjóðgarður í 15. sæti af 41 stofnun í flokki meðalstórra stofnana í könnun stétarfélagsins Sameykis um stofnun ársins. Af öllum ríkisstofnunum var Vatnajökulsþjóðgarður nr. 32 af 143 stofnunum og fór stofnun upp um ríflega 40 sæti miðað við fyrra ár sem er vel af sér vikið. Enn einn mælikvarði á starfið er ánægja gesta og varð Vatnajökulsþjóðgarður nýlega í 2. sæti yfir bestu þjóðgarða í Evrópu og í 17. sæti á heimsvísu hjá Trip Advisor ferðavefnum sem er mikil viðurkenning og hvatning til að halda áfram þróun og uppbyggingu starfseminnar í Vatnajökulsþjóðgarði.

Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs

Árið 2020 í Vatnajökulsþjóðgarði

Suðursvæði - Skaftafell

Veturinn 2019-2020 var misviðrasamur. Sífelldar lægðir settu mark sitt á starfsemina en þjóðvegi 1 var ítrekað lokað vegna erfiðra aðstæðna. Í upphafi árs snjóaði mikið sem er óvenjulegt fyrir svæðið Snjóalög héldust langt fram á vorið og hluta tjaldflata kól. Göngustígar komu fremur illa undan vetri sökum snjófargs og bleytu um vorið. COVID-19 hafði óhjákvæmilega áhrif á starfsemina með vorinu en gestum fækkaði mikið eftir að smit fóru að greinast á Íslandi og samkomutakmarkanir tóku gildi.

Suðursvæði - Breiðamerkursandur og Höfn

Á austurhluta suðursvæðis einkenndist árið af vinnu við gerð viðauka við stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs vegna Breiðamerkursands. Viðaukinn var samþykktur í stjórn í október og fór þá í lögbundið umsagnarferli sem gert er ráð fyrir að klárist á vordögum 2021. Þessi vinna var einnig mikilvægur þáttur í innleiðingu atvinnustefnu á svæðinu.

Austursvæði

Árið 2020 gekk í garð með nýjum áskorunum og verkefnum tengdum COVID-19 eins og víða annarsstaðar. Mikil vinna var á austursvæði vegna innleiðingu Grænna skrefa, Græns bókhalds og endurnýjun leyfis VAKANS fyrir þjóðgarðinn, en starfsmenn á austursvæði hafa leitt þá vinnu. Snæfellsstofa opnaði í maí, mánuði seinna en vanalega. Fáir gestir komu til að byrja með en fór fjölgandi er leið á sumarið og voru þá Íslendingar í aðalhlutverki ólíkt hefðbundnu ferðasumri. Gestafjöldi í Snæfellsstofu minnkaði um 75% milli ára og komu um 5 þúsund gestir. Íslendingar voru iðnir við fjallaferðir og var gaman að taka á móti mörgum þeirra á hálendinu um sumarið. Fækkun gesta á hálendinu varð því minni en búist var við. Landverðir komu til byggða fyrr en vanalega vegna aðalhalds í rekstri og komu áður en að vegir lokuðust norðan jökla. Framkvæmdir á svæðinu voru litlar. Smálegt viðhald var í Snæfellsskála sem og á öðrum innviðum á svæðinu.

Vestursvæði

Þegar litið er um öxl er óhætt að segja að liðið ár hafi einkennst af óvissu og nýjum áskorunum. Starfstímabilið á hálendinu var óvenju stutt enda opnuðust leiðir með seinna móti og þegar leið á ágúst var faraldurinn, á ný, búinn að draga verulega úr ferðagleðinni. Íslendingar voru hins vegar duglegir að ferðast um fjöllin í sumar og gáfu sér góðan tíma til að njóta þeirra og því fækkaði gestakomum á háönn minna en búist hafði verið við.

Í desember setti Vatnajökulsþjóðgarður svo af stað nýtt verkefni á Kirkjubæjarklaustri, í samstarfi við Skógræktina. Verkefnið felst í gerð ævintýraskógar, í þjóðskóginum á Kirkjubæjarklaustri og er hugsað sem lifandi samfélagsverkefni, sem byggir á útivist og náttúruupplifun, leik og sköpun.

Norðursvæði

Ársins 2020 verður helst minnst fyrir tvennt: COVID-19 aðgerðir og fjölda Íslendinga sem skelltu sér í útilegu í Ásbyrgi. Veður var mjög kaflaskipt og má í grófum dráttum lýsa sumrinu þannig að maí var kaldur, júní sólríkur og hlýr, júlí kaldur og ágúst hlýr.

Norðurhálendi

COVID-19 setti sitt mark á starfsemina. Landverðir fóru í sóttkví í 2 vikur en tekist var á við þá áskorun með mikilli samheldni og af æðruleysi. Þrír hlupu í skarðið við krefjandi aðstæður og munaði þá um að það voru reyndir landverðir, því veður var gott og umferð mikil. Gestir voru annars í heildina færri en undangengin ár. Vegir voru opnaðir 25. júní en ekki var eftirspurn ferðaþjónustuaðila eftir undanþágum, líkt og verið hefur. Veður var almennt í kaldara lagi - hlýir kaflar inn á milli, en einnig hraustleg vetrarskot með snjókomu. Milt veður var í byrjun október, þegar landverðir fóru til byggða 4.október.

Óhöpp og slys voru með minna móti. Rannsóknaraðilar voru færri en undangengin ár, en margir erlendir aðilar frestuðu um ár vegna COVID-19.

Í lok árs tók Anna Þorsteinsdóttir til starfa sem þjóðgarðsvörður og Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir lét af því starfi eftir 10 ár á svæðinu.