Skógarstígur
Á göngu eftir skógarstígnum í Ásbyrgi má upplifa friðsæld og fjölbreytt fuglalíf skógarins. Á árunum 1947-1977 var barrtrjám plantað í Ásbyrgi og liggur stígurinn um helstu skógræktarreitina frá þeim tíma. Einnig umvefur hinn náttúrulegi birkiskógur Ásbyrgis ferðafólk.
Stígurinn liggur frá Gljúfrastofu og undir austurvegg Ásbyrgis alveg inn að Botnstjörn innst í Ásbyrgi. Skógurinn í Jökulsárgljúfrum er mikilvægur til útivistar. Hann veitir mannfólki skjól, ánægju og upplifun. Áður var skógurinn nýttur til húsagerðar, eldiviðar, kolagerðar og beitar. Á leiðinni sjást gamlar kolagrafir. Hægt að gera hringleið úr þessari leið með því að fara leið Á-4, Undir Eyjunni, til baka.
Tengdar gönguleiðir
Botnstjörn
Ásbyrgi heillar margan ferðalanginn. Innst í byrginu er gengið um gróskumikinn birkiskóg, umvafinn hamrabeltinu, og fyrir botni hvílir friðsæl Botnstjörn sem er heimkynni rauðhöfðaanda á sumrin. Margir finna ákveðna helgi hvíla yfir staðnum og telja jafnvel að þar séu híbýli álfa og huldufólks. Botnstjörn er gamall fosshylur og eitt af ummerkjum sem hamfaraflóðin hafa skilið eftir. Á vorin og í vætutíð kemur fyrir að ofaní tjörnina seitli Botnslækur.
Undir Eyjunni
Þessi leið hefst í suðvesturhorni tjaldsvæðisins í Ásbyrgi. Í hamraveggjum Eyjunnar má sjá hin ýmsu form býkúpuveðrunar og mögulega hrafnslaupa en svo kallast hreiður krumma. Þegar komið er suður fyrir Eyjuendann er gengið milli þingeyskra stórþúfna og um mólendi þar sem fylgjast má með lífríkinu. Hægt er að gera hringleið úr þessari leið með því að fara leið Á-3, Skógarstíginn, til baka.