Ferðaráð
Náttúran er það mikilvægasta sem við eigum – og eigum ekki. Í það minnsta erum við öll hluti af henni og okkur ber að passa upp á hana saman. Hér eru nokkur góð ferðaráð fyrir ferðalanga og náttúruna.
Tjöld og gisting
Gisting utan merktra tjaldsvæða er óheimil á eftirtöldum svæðum innan þjóðgarðsins:
- Í Jökulsárgljúfrum
- Á svæði sem nýtur sérstakrar verndar í Öskju
- Í Kreppulindum
- Á láglendi á Hoffellssvæði og Heinabergssvæði
- Á Skaftafellsheiði, Bæjarstaðarskógi og í Morsárdal. Þó er heimilt að tjalda í Skaftafellsfjöllum ofan 400 metra hæðar og á svæði í mynni Kjósar. Ferðafólk afli upplýsinga hjá þjóðgarðinum um tjöldun á þessum svæðum.
Um gistingu utan merktra tjaldsvæða í Vatnajökulsþjóðgarði gilda að öðru leyti sérreglur sbr. 10. gr. reglugerðar 300/2020 um Vatnajökulsþjóðgarð, sem stjórn setur í samráði við svæðisráð og birtar eru á vef þjóðgarðsins. Reglurnar skulu endurspegla markmið og skilmála stjórnunar- og verndaráætlunar (sem byggja á lagaramma Vatnajökulsþjóðgarðs) og ákvæði laga um náttúruvernd nr. 60/2013
Útivist
Þjóðgarðurinn er vettvangur fyrir fjölbreytta útivist og fólk finnur sífellt fleiri leiðir til að njóta útivistar. Gönguferðir eru líklega ein elsta gerð útivistar og fjölmargar leiðir í boði. En einnig er vegakerfi þjóðgarðsins víðfemt og býður upp á allt frá malbiki fyrir allar gerðir bíla yfir í vegi sem eru aðeins færir breyttum bílum og reynslumiklum ökumönnum. Undanfarin ár hafa vinsældir hjólreiða einnig aukist og þónokkuð af ferðafólki hjólar t.d. yfir hálendið á sumrin. Stefna þjóðgarðsins er að fjölga sérmerktum hjólaleiðum en vegir eru auðvitað einnig fyrir hjól.
Árstíðir
Ferðalög um ísland krefjast undirbúnings því veðrið er síbreytilegt og aðstæður fjölbreyttar. Mikill munur er á aðgengi og þjónustu eftir árstíðum.
Gönguleiðir
Ýmis konar gönguleiðir eru í boði um allan þjóðgarðinn og upplagt að skoða vefsíðu þjóðgarðsins og gönguleiðakort til þess að fá hugmyndir og finna leiðir sem henta hverjum og einum. Einnig er hægt er að fá frekari upplýsingar í gestastofum okkar og hjá landvörðum.
Akstur á fjallvegum
Hálendisvegir eru jafnan óuppbyggðir malarvegir með óbrúuðum ám og einstaka vegir eru óhentugir eða ófærir sumum ökutækjum. Best er að leita upplýsinga hjá staðkunnugum áður en farið er um ókunna hálendisvegi og athugið að einungis er heimilt að keyra þá vegi sem sýndir eru á kortum þjóðgarðsins. Kort á GPS-tækjum eða frá þriðja aðila geta gefið rangar upplýsingar um ökufæra og opna vegi.
Öryggi og aðgát
Stærstur hluti Vatnajökulsþjóðgarðs er á hálendi Íslands þar sem sumur eru stutt, veður breytist fljótt og færð getur spillst vegna vatnavaxta, sandfoks og jafnvel snjóa, hvenær árs sem er. Við mælum því með eftirfarandi verkfærum og ráðum:
- Veður: Fylgist með veðri og veðurspám frá Veðurstofu Íslands, vedur.is
- Vegir: Kannið ástand og opnanir/lokanir vega hjá Vegagerðinni, vegagerdin.is
- Aðvaranir: Þjóðgarðurinn birtir sérstakar aðvaranir fyrir svæði á vefnum.
- Skráning: Við mælum með að skrá ferðaáætlun hjá safetravel.is, sérstaklega fyrir göngu- og hjólreiðafólk.
- Neyðarnúmer: 112
Verndum náttúruna
Náttúran er það mikilvægasta sem við eigum – og eigum ekki. Í það minnsta erum við öll hluti af henni og okkur ber að passa uppá hana saman. Það er einnig á ábyrgð okkar allra að leggja okkur fram um að vernda náttúru og menningarminjar þannig að komandi kynslóðir geti notið þeirra á sama hátt og við í dag. Í þjóðgarðinum felur þetta meðal annars í sér að við:
- forðumst að trufla dýralíf
- fylgjum gönguleiðum þar sem þær eru merktar og/eða greinilegar
- hlöðum ekki vörður né bætum steinum í gamlar
- hvorki fjarlægjum né færum úr stað steina, plöntur eða annað sem tilheyrir náttúru- og menningarminjum
- höfum hunda í ól
- kveikjum ekki opinn eld
- fleygjum ekki rusli, hvorki brennum né urðum sorp
- flokkum sorp og losum á viðeigandi stöðum
- fylgjum drónareglum