Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Hvað býr í þjóðgarði?

Þann 31. ágúst kl. 17, opnaði sýningin Hvað býr í þjóðgarði? í sérsýningarrými Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni. Sýningin er samstarfsverkefni Náttúruminjasafnsins og Vatnajökulsþjóðgarðs og er innblásin túlkun á þjóðgarðinum í heild sinni, landslagi hans, sögu og samfélaginu umhverfis garðinn.

1. september 2023

Miðpunktur sýningarinnar er umfangsmikill og litskrúðugur skúlptúr sem sýnir á áhrifamikinn og hugvitssamlegan hátt náttúrufyrirbrigði og fjölbreytileg stef þjóðgarðsins, en skúlptúrinn er unninn af hönnuðum og listafólki Studio Irmu og málaður af Eddu Karólínu. Með sýningunni er gestum þannig veitt áþreifanleg innsýn í ævintýraheim Vatnajökuls og náttúruna umhverfis hans.

Sýningin mun á næstu árum ferðast á milli gestastofa þjóðgarðsins og verður því opin heimafólki og skólahópum í nærumhverfi garðsins til gagns og gamans. Fyrsti viðkomustaður sýningarinnar er hjá Náttúruminjasafni Íslands í Perlunni en þar er tekið á móti skólahópum í hverri viku yfir vetrartímann og mun því sýningin nýtast sem gluggi fyrir ungviði höfuðborgarsvæðisins til að kynnast þjóðgarðinum sem við eigum öll saman. Verkefnið fellur því vel að markmiðum þjóðgarðsins um að miðla sérstöðu hans til íbúa í kringum hann og að kynna þjóðgarðinn í heild á höfuðborgarsvæðinu.

Hvað býr í þjóðgarði er samstarfverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs og unnin af hönnuðum og listafólki hjá Studio Irmu. Sýningin er styrkt af fræðslusjóði þjóðgarðsins en markmið hans eru meðal annars að miðla starfsemi þjóðgarðsins og náttúruperlum með fjölbreyttum hætti til gesta, íbúa í nærsamfélögum garðsins og annarra. Það er von þeirra sem standa að verkefninu að sýningin styrki tengingar fólks til náttúruverndar og verðmæta þjóðgarðsins sem eru uppspretta útivistar, skapandi greina, rannsókna og atvinnulífs svo fátt eitt sé nefnt.

Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands hélt tölu ásamt Ingibjörgu Halldórsdóttur framkvæmdarstjóra þjóðgarðsins sem opnaði sýninguna svo í kjölfarið.

Hópurinn á bakvið sýninguna. Á myndina vantar Benedikt Traustason, Álf Birki Bjarnason og Ragnheiði Björgvinsdóttur.