200 milljónum úthlutað til Vatnajökulsþjóðgarðs árið 2021 úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum
Vatnajökulsþjóðgarður fékk í gær, 9. mars, úthlutað um 200 milljónum til framkvæmda árið 2021 úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum.
Vatnajökulsþjóðgarður fékk í gær, 9. mars, úthlutað um 200 milljónum til framkvæmda árið 2021 úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum. Landsáætlun er þriggja ára verkáætlun og á árunum 2021 til 2023 er gert ráð fyrir um 450 milljóna króna framlagi til Vatnajökulsþjóðgarðs.
Það voru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem gerðu grein fyrir úthlutun fjármuna úr Landsáætluninni. Samtals er nú úthlutað 764 milljónum króna. Á kortasjá Ferðamálastofu má sjá yfirlit yfir úthlutanir á landsvísu.
Landsáætlun um uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum er metnaðarfullt verkefni ríkisstjórnar með það að markmiði að auka og bæta innviði um allt land. Þau verkefni sem nú eru í vinnslu hjá Vatnajökulsþjóðgarði eru m.a. endurbætur á fráveitu í Skaftafelli, nýbygging salerna við Dettifoss og uppbygging á Jökulsárlóni skv. deiliskipulagi. Heildarupphæð verka í vinnslu hjá Vatnajökulsþjóðgarði er um 900 milljónir en fjármögnun þessara verkefna kemur að stærstum hluta úr Landsáætlun ásamt verkefnum tengdum átaksverkefnum á vegum ríkisins vegna Covid 19. Vatnajökulsþjóðgarður vinnur einnig að byggingu gestastofu á Kirkjubæjarklaustri og er kostnaður áætlaður um 700 milljónir en sú upphæð kemur af fjárlögum ríkisins.
Í gær var einnig úthlutað styrkjum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, alls 807 milljónum króna. Sveitarfélagið Hornafjörður fékk úthlutað hæstum styrk úr sjóðum, 97 milljónum króna, til að leggja göngu- og hjólaleið milli Svínafells og Skaftafells í Öræfum. Vatnajökulsþjóðgarður óskar Sveitarfélaginu Hornafirði til hamingju og fagnar áformum um vistvænar og öruggar ferðleiðir í Öræfum.
Vatnajökulsþjóðgarður þakkar fyrir metnaðarfullar úthlutanir og hlakkar til áframhaldandi uppbyggingar á innviðum til að bæta þjónustu við gesti og náttúru garðsins.