Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

50 ára afmælishátíð þjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum

Í tilefni 50 ára afmælis þjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum var boðið til afmælishátíðar í botni Ásbyrgis sunnudaginn 18. júní síðastliðinn. Mikið líf og fjör var á hátíðinni og veðurguðirnir komu gestum sífellt á óvart með fjölbreytilegu en mildu veðri.

26. júní 2023

Eftir þónokkurn aðdraganda voru Jökulsárgljúfur friðlýst sem þjóðgarður þann 23. júní árið 1973 og þau hafa frá 2008 verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Jökulsá á Fjöllum, mikilfenglegir fossar, farvegir hamfaraflóða og einstakt samspil elds og íss setja sterkan svip á svæðið. Vistgerðir eru breytilegar, syðst eru melar og sandar, um miðbikið mó- og votlendi og nyrst er skóglendi einkennandi. Fuglalíf er þar af leiðandi fjölbreytt. Jökulsáin mótar ekki aðeins land og líf heldur einnig mannlíf og menningu svæðisins. Ásbyrgishátíðir voru stór hluti af mannlífi svæðisins á síðustu öld. Þar var m.a. keppt í íþróttum, haldnar ræður, boðið upp á veitingar og dansað undir hömrum Ásbyrgis. Það var því lag að bjóða til hátíðar í þessu hjarta svæðisins í tilefni 50 ára afmælis þjóðgarðsins.

Afmælishátíðin var haldin á íþróttavellinum í botni Ásbyrgis. Landverðir tóku á móti gestum við Gljúfrastofu og buðu þeim skutlþjónustu inn í botn. Er inn í botn var komið buðu veislustjórarnir og landverðirnir Ásta Rut Hjartardóttir og Robert Duane Boulter gesti velkomna og settu hátíðina. Guðrún Jónsdóttir, þjóðgarðsvörður, tók fyrst til máls. Í ávarpi sínu bauð Guðrún gestum að gefa ímyndaraflinu lausan tauminn og fara með henni í ferðalag hugans um Jökulsárgljúfur eins og hún þekkir þau. Saman svifu allir viðstaddir hugar um gljúfrin og dáðust að fegurð þeirra og krafti, allt frá fossakeðjunni í suðri niður í undrasmíðina Ásbyrgi, með viðkomu meðal annars í gróðurvininni Hólmatungum og griðarstaðnum Vesturdal.

Sigrún Helgadóttir, náttúrufræðingur, rithöfundur og fyrsti landvörðurinn í Jökulsárgljúfrum, tók næst til máls. Hún er fædd og uppalin í Reykjavík en innan við tveggja ára aldur var hún þó komin til sumardvalar við Jökulsárgljúfur og hefur verið þar meira eða minna flest sumur. Í erindi sínu fjallaði Sigrún um svæðið af einstakri umhyggju og væntumþykju. Hún ræddi meðal annars sögu friðlýsingar í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum og benti á mikilvægi þess að ná samkomulagi um verndun svæðisins austan ár.

Því næst tók Soffía Gísladóttir, formaður og fulltrúi sveitarstjórnar Norðurþings í svæðisráði norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, til máls. Í erindi sínu minntist hún góðra minninga úr Jökulsárgljúfrum, jafnt úr barnæsku sem og af fullorðinsárum. Hún fór einnig yfir hlutverk svæðisráða Vatnajökulsþjóðgarðs og mikilvægi þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum fyrir Norðurþing.

Á milli erinda voru tónlistaratriði en Haffi Hjálmars flutti tvö lög ásamt börnum sínum Karli Mikael og Isabellu Ásrúnu, frænku þeirra Lilju Alexandersdóttur og Elvari Bragasyni. Einnig spilaði Sigurður Tryggvason á harmonikkuna.

Stefán Guðmundsson, ráðuneytisstjóri, flutti ræðu fyrir hönd ráðherra í Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Í erindi sínu stiklaði hann á stóru um sögu þjóðgarðsins, allt frá því að tillaga um friðun svæðis frá Hljóðaklettum suður fyrir Selfoss var borin fram árið 1961. Hann minntist einnig á mikilvægi stuðnings og þekkingar heimafólks fyrir verndun náttúrunnar.

Að ræðuhöldum loknum voru kvenfélag Öxfirðinga og kvenfélag Keldhverfinga með léttar veitingar til sölu.

Næst á dagskrá var afhending viðurkenninga til einstaklinga sem hafa veitt af hendi sérstaklega gott framlag til Jökulsárgljúfra. Handhafar þeirra voru Sigrún Helgadóttir, Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, Jóna Óladóttir og Kári Kristjánsson. Þau fengu öll einstök listaverk eftir listakonuna Jennifer Patricia Please.

Landverðir buðu upp á leiki og gleði í anda gamla tímans. Mikið var hlaupið og hlegið og ungir sem aldnir tóku þátt. Að lokum svifu gestir og landverðir um völlinn í léttum dansi, þar sem gömlu dansarnir réðu ríkjum, og Sigurður Tryggvason lék undir á harmonikku.

Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum þakkar gestum og öllum þeim sem komu að því að halda upp á þennan áfanga með okkur kærlega fyrir þátttökuna með von um farsæla starfsemi í Jökulsárgljúfrum um ókomna tíð.

Starfsfólk Jökulsárgljúfra á afmælishátíðinni.

Myndir frá afmælishátíðinni

Axel Þórhallsson tók myndir og má finna þær á facebook.