50 ára afmæli þjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum
Sunnudaginn 18. júní verður haldin afmælishátíð til að fagna 50 ára afmæli þjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum. Hátíðin mun fara fram á íþróttavellinum í botni Ásbyrgis milli kl 17.00 og 21.00.
Jökulsárgljúfur voru friðlýst sem þjóðgarður árið 1973 og hafa frá 2008 verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Jökulsá á Fjöllum, einstakt samspil elds og íss, mikilfenglegir fossar, fjölbreytt lífríki, gríðarlegur kraftur og ólýsanleg fegurð einkenna gljúfrin kæru sem okkur mörgum þykir svo vænt um. Jökulsáin mótar ekki aðeins land og líf heldur einnig mannlíf og menningu svæðisins.
Ásbyrgishátíðir voru stór hluti af mannlífi svæðisins á síðustu öld. Þar var m.a. keppt í íþróttum, haldnar ræður, boðið upp á veitingar og dansað var undir hömrum Ásbyrgis. Það er því lag að bjóða til hátíðar í þessu hjarta svæðisins í tilefni 50 ára afmælis þjóðgarðsins. Góðir gestir koma í heimsókn og á mælendaskrá eru:
Guðrún Jónsdóttir, þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum
Sigrún Helgadóttir, náttúrufræðingur og rithöfundur
Soffía Gísladóttir, formaður svæðisráðs norðursvæðis
Tónlist verður flutt milli atriða, landverðir standa fyrir leikjum og leikið verður fyrir dansi á danspallinum.
Kvenfélag Keldhverfinga og Kvenfélag Öxfirðinga verða með léttar veitingar til sölu og allur ágóði af þeim rennur til þeirra
Í ljósi þess að bílastæðið í botni Ásbyrgis er ekki stórt biðjum við gesti að samnýta bíla og leggja sem flestum farartækjum á bílastæðum við Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Bætt verður við bílastæðum þar með því að opna út á grasflötina.
Til að aðstoða við að áætla fjöldann á afmælishátíðinni, vinsamlegast hakið við mætingu í viðburðinum á Facebook síðu Jökulsárgljúfra.
Íslenskt sumarveður getur verið alls konar - Komið klædd eftir veðri!
Verið öll hjartanlega velkomin!