Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

50 ára afmælishátíð þjóðgarðs í Skaftafelli

Laugardaginn 24. nóvember síðastliðinn var haldið upp á 50 ára afmæli þjóðgarðs í Skaftafelli. Dagurinn var hinn hátíðlegasti; veðurguðirnir sáu til þess að svæðið skartaði sínu fegursta sem og að greiða leið þeirra sem til hátíðar komu á þessum tíma árs þar sem allra veðra er von.

28. nóvember 2018

Laugardaginn 24. nóvember síðastliðinn var haldið upp á 50 ára afmæli þjóðgarðs í Skaftafelli. Dagurinn var hinn hátíðlegasti; veðurguðirnir sáu til þess að svæðið skartaði sínu fegursta sem og að greiða leið þeirra sem til hátíðar komu á þessum tíma árs þar sem allra veðra er von.

Í september 1967 festi ríkið kaup á jörðinni Skaftafell. Formlegur undirbúningur að stofnun þjóðgarðs í Skaftafelli hófst þó sjö árum áður, með bréfi frá Sigurði Þórarinssyni dagsettu í nóvember 1960 til þáverandi Náttúruverndarráðs. Margir komu að undirbúningi stofnunar þjóðgarðsins á sínum tíma. Úrslitum réði þó velvilji landeigenda á svæðinu, manna eins og Ragnars Stefánssonar bónda í Hæðum og Ingigerðar Þorsteinsdóttur, eiganda Bölta. Reglugerð um Skaftafellsþjóðgarð tók gildi 23. ágúst 1968 og við það ártal var miðað í þessum hátíðarhöldum.

Hátíðarsamkoman fór fram í veitingasal þjóðgarðsins í Skaftafelli. Þegar gestir gengu í salinn lék Jón Bjarnason nokkur lög á harmonikku. Helga Árnadóttir, þjóðgarðsvörður, tók á móti gestum og í erindi sínu fjallaði hún meðal annars um þær miklu breytingar á gestafjölda sem hafa orðið frá fyrstu árum þjóðgarðs, nýjustu framkvæmdir á svæðinu sem og þær áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir í dag.

Anna María Ragnarsdóttir flutti næsta erindi. Anna María ólst upp í Skaftafelli, er dóttir Ragnars Stefánssonar og Laufeyjar Lárusdóttur sem ásamt Jóni Stefánssyni seldu ríkinu Hæðir og Sel í Skaftafelli. Ragnar var einnig fyrsti þjóðgarðsvörðurinn og sinnti því starfi til ársloka 1986. Anna María lýsti minningum sínum frá þeim fundum sem fram fóru í Hæðum í undirbúningi að stofnun þjóðgarðs. Hún lýsti einnig upplifun sinni af starfsemi þjóðgarðs í Skaftafelli fram til dagsins í dag og gagnrýndi m.a. þann rýra fjárhag sem þjóðgarðurinn hefur lengi búið við.

Guðlaugur Heiðar Jakobsson tók næst til máls. Heiðar, eins og hann er kallaður í daglegu tali, ólst upp í Bölta. Foreldar hans störfuðu fyrir þjóðgarðinn, faðir hann sá m.a. um slátt á tjaldsvæðinu og móðir hans um þrif. Heiðar rifjaði upp góð kynni hans af fyrsta landverðinum, sem í þá daga nefndist gæslumaður. Ólafur Guðmundsson sinnti þessu starfi en hann var einnig starfandi lögreglumaður í Reykjavík.

Því næst komu erindi fræðimannanna og hjónanna Helga Björnssonar, jarðeðlisfræðings og Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, grasafræðings og prófessors við Háskóla Íslands. Helgi ræddi um breytingar á árfarvegum og jöklum. Skeiðará færði sig yfir í farveg Gígjukvíslar árið 2009 og síðan fylgdi Súla eftir árið 2016. Í dag falla öll vötn úr Skeiðarárjökli í sama árfarveg, Gígjukvísl.

Þóra Ellen fór yfir rannsóknir hennar og Kristínar Svavarsdóttur, á gróðurframvindu í sömu gróðurreitum og mældir voru af Svíanum Ake Persson árið 1962. Einnig fór hún yfir rannsóknir sínar á Skeiðarársandi og þeim gróskulega birkiskógi sem þar vex upp. Fyrstu mælingar voru gerðar árið 2004 og þá voru birkiplöntur 5-20 cm háar. Við nýjustu mælingar hafa fundist 3,5 m há birkitré. Haldi birkiskógurinn áfram að dafna á Skeiðarársandi og engin stór áföll dynji yfir má búast við að á sandinum vaxi upp stærsti, náttúrulegi birkiskógurinn á Íslandi á þessari öld.

Á milli erinda Helga og Þóru tóku gestir þátt í fjöldasöng hvar Þorlákur Magnússon í Svínafelli spilaði undir á gítar.

Að loknum fræðsluerindum tóku tveir fyrrum landverðir til máls. Fyrst sagði Svafa Sigurðardóttir frá vinnu sinni sem landvörður sumrin 1987 og 1988. Svafa minntist samstarfsfélaga sinna hlýlega og lýsti áskorunum í starfi, m.a. þegar taka þurfti á háreysti á tjaldsvæðinu. Einnig kom fram að þessi sumur hafi hringleiðin að Skaftafellsjökli verið lögð, gönguleið sem í dag nefnist Jökulslóð. Síðan tók Urður Ýrr Brynjólfsdóttir til máls, en hún hefur unnið sem landvörður í Skaftafelli í sex sumur, frá árinu 2011. Hún tók undir að störf landvarða fyrir 30 árum séu um margt keimlík því sem landverðir nútímans fást við. Hins vegar sé gestafjöldinn og erillinn miklu meiri í dag. Eins fannst henni leitt að þegar mikið er að gera og fátt um starfsfólk að þá sé fræðsluhlutverk landvarða skorið niður.

Að lokinni dagskrá var boðið upp á kaffiveitingar. Um baksturinn og undirbúning sáu Öræfakonurnar Unnur Bjarnadóttir, Halldóra Oddsdóttir, Auður Lóa Magnúsdóttir, Pálína Þorsteinsdóttir og Sigrún Sigurgeirsdóttir.

Myndirnar sem hér fylgja voru teknar af Guðrúnu Stefaníu V. Ingólfsdóttur, Ingibjörgu Smáradóttur og Jón Ágústi Guðjónssyni.

Fyrir hönd starfsfólks Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli vil ég þakka gestum, fyrirlesurum og öllum þeim sem komu að því að halda upp á þennan áfanga með okkur kærlega fyrir þáttökuna með von um farsæla starfsemi í Skaftafelli um ókomna tíð.

Með vinsemd, Helga Árnadóttir, þjóðgarðsvörður