Afkomandi síðustu ábúenda í Seli á ferð með Bændaferðum
Föstudaginn 28. maí tók Sigrún Sigurgeirsdóttir, landvörður í Skaftafelli, á móti hópi frá Bændaferðum

Allir í hópnum höfðu komið áður í Skaftafell. Sumir höfðu verið nýlega á svæðinu en dæmi voru um að yfir 50 ár væru frá síðustu heimsókn og það hafa svo sannarlega orðið miklar breytingar síðan.
Í Skaftafelli voru þrír bæir: Hæðir, Sel og Bölti. Bæjarhúsið í Seli var byggt árið 1912 en búseta lagðist af árið 1946. Þjóðminjasafnið heldur húsinu við í upprunalegri mynd og á sumrin er bærinn opinn fyrir gesti sem koma í þjóðgarðinn.
Sigrún upplifði sérstaka stund í baðstofunni í Seli: minningar fjölskyldunnar fengu að njóta sín í frásögnum Ingu Sigríðar Ragnarsdóttur fararstjóra því móðir hennar ólst upp í Selinu. Myndin er tekin við Sel og sýnir hluta af hópnum, þar sem sumir voru lagðir af stað til baka.