Beint í efni

Afmælishátíð Herðubreiðarlinda

Í tilefni þess að í ár eru 50 ár liðin frá því að Herðubreiðarlindir voru friðlýstar var efnt til afmælishátíðar þann 27. júlí síðastliðinn í samstarfi við Ferðafélag Akureyrar. Veðrið lék við hátíðargesti, örlítil gola (næg til að halda mývargnum niðri að mestu), sólarglennur, þurrt og 15 stiga hiti. Hátíðin var vel sótt af um það bil hundrað gestum.

21. nóvember 2024
Krístín Björk landvörður og veislustjóri setur hátíðina / Gasa Kenny

Formleg dagskrá byrjaði klukkan 14 og að henni lokinni hófst óformleg dagskrá sem stóð fram á kvöld. Kristín Björk landvörður var veislustjóri og sá um að stýra samkomunni. Einnig fór hún yfir gullkorn úr gömlum skýrslum land- og skálavarða. Að sjálfsögðu hófst dagskrá með fjöldasöng og stýrði Mývetningurinn Þorlákur Páll honum. Að því loknu hélt Anna Þorsteinsdóttir þjóðgarðsvörður á norðurhálendi Vatnajökulsþjóðgarðs ávarp, þar sem hún fór yfir mikilvægi allra þeirra sem hafa sýnt svæðinu væntumþykju og mikilvægi friðlýsingar þegar kemur að verndun til framtíðar. Tónlistarfólkið Vigdís Hafliðadóttir og Línus Orri sungu og spiluðu ljúfa tóna fyrir gesti hátíðarinnar. Boðið var upp á fræðslugöngur og barnastund með landvörðum, núverandi sem fyrrverandi, og gátu því öll fundið eitthvað við sitt hæfi.

Dýrindis kaffiveitingar frá Kvenfélagi Mývatnssveitar voru á boðstólum og kleinur frá Ferðafélagi Akureyrar. Voru veitingarnar afar ljúffengar og mátti sjá að mývargnum fannst það líka, þá sérstaklega rjóminn.

Vigdís Hafliðadóttir og Linus Orri sáu um tónlistaratriði / Gasa Kenny

Hjalti Jóhannesson frá Ferðafélagi Akureyrar fór yfir sögu ferðafélagsins í Herðubreiðarlindum. Heiðursviðurkenningar voru veittar fyrir vel unnin störf í þágu Herðubreiðarlinda í gegnum árin. Þær hlutu Haukur Ívarsson, sem í tugi ára leiddi uppbyggingu Ferðafélags Akureyrar í Herðubreiðarlindum og Kári Kristjánsson, landvörður til margra ára, og fengu þeir útskorið módel af Herðubreið af því tilefni. Einnig var boðið upp á að mála listaverk af Herðubreið eða því sem hugann lysti. Hápunktur hátíðarinnar var svo vígslan á nýju þurrsalerni en Stefanía Eir aðstoðarþjóðgarðsvörður og Einar Ingi formaður Þorsteinsskálanefndar opnuðu hann formlega. Kristrún landvörður hafði komið sér fyrir inni í honum og kom því öllum á óvart þegar salernið var opnað að hausinn hennar stóð upp úr klósettsetunni. Var salernið afar vinsæll myndakassi (photo-booth) fyrir gesti hátíðarinnar.

Siggi í Lundi spilaði á harmonikkuna og sykurpúðar og pinnabrauð voru grilluð á bálstæði fram eftir kvöldi.

Við þökkum öllum kærlega fyrir komuna og sérstakar þakkir fær Ferðafélag Akureyrar fyrir samstarfið við skipulagninguna

Myndir frá afmælishátíðinni

Gasa Kenny tók myndir og má finna þær á facebook síðu þjóðgarðsins