After Ice: Hrífandi stuttmynd um bráðnun sex skriðjökla Vatnajökuls
Í nýrri heimildamynd nýta fræðimenn við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði og Dundee-háskóla í Skotlandi nýjustu tækni til þess að varpa ljósi á þau miklu áhrif sem hlýnandi loftslag hefur haft á bráðnun jökla á Íslandi.
Loftmynd af Jökulsárlóni frá 2019. Skjáskot úr myndinni "After Ice". Mynd: Dr. Kieran Baxter.
Í nýrri heimildamynd nýta fræðimenn við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði og Dundee-háskóla í Skotlandi nýjustu tækni til þess að varpa ljósi á þau miklu áhrif sem hlýnandi loftslag hefur haft á bráðnun jökla á Íslandi. Myndin var frumsýnd á fjölmörgum netveitum fimmtudaginn 11. mars.
Í myndinni, sem nefnist After Ice, eru ljósmyndir, m.a. frá Landmælingum Íslands, af sex skriðjöklum Vatnajökuls frá fimmta og níunda áratug síðustu aldar endurunnar í þrívídd og lagðar saman við myndefni úr samtímanum til þess að draga fram með skýrum hætti hversu mikið jöklar hafa hopað á síðustu árum og áratugum. Í sumum tilvikum nemur hopunin tugum eða jafnvel hundruð metra á ári. Þeir sex skriðjöklar Vatnajökuls sem myndin sýnir frá eru Fjallsjökull, Breiðamerkurjökull, Skálafellsjökull, Heinabergsjökull, Fláajökull og Hoffellsjökull.
Á bak við verkefnið standa Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði, og Kieran Baxter, kennari og vísindamaður í samskiptahönnun við Dundee-háskóla sem jafnframt hefur verið í hlutastarfi við rannsóknasetrið á Höfn. Kveikjan að þessu verkefni var ekki einungis brennandi áhugi þeirra á mynd- og snjallmiðlun því að baki liggur sameiginleg ástríða beggja fyrir jöklum og jöklalandslagi, einkum frá fagurfræðilegu sjónarhorni.
„Í myndinni skoðum við þetta risaviðfangsefni, eina stærstu áskorunum mannkyns, hamfarahlýnun. Í hnotskurn, þá töldum við Kieran rétt að koma okkar tilteknu sérþekkingu á bráðnun jökla á framfæri við almenning, helst um heim allan, og þá í gegnum miðil sem við þekkjum báðir mjög vel, kvikmyndina. En jafnframt þá með þeim hætti að sjóngervingarnar sem við bjuggum til væru kyrfilegar jarðtengdar við vísindalegu þekkingu á jöklum og bráðnun þeirra,“ segir Þorvarður.
Myndirnar sem eru notaðar eru um leið gögn og heimildir um ásýnd jöklanna á þeim tíma þegar þeirra var aflað og leggja þannig grunn að áframhaldandi langtímavöktun á breytingunum.
Þar sem drónamyndskeið, ýmist tekin í raunheimi eða sýndarheimi, eru veigamesti þátturinn í nálgun þeirra félaga má segja að þeir séu að gefa staðreyndum um bráðnun jökla byr undir báða vængi, bæði í þeim skilningi að auðvelda viðtöku þeirra hjá almenningi og koma þeim á framfæri við fólk út um allan heim á formi sem allir ættu að geta skilið þó svo að fólk hafi aldrei séð jökul berum augum.
„Ég hef rannsakað jökla á Íslandi í nokkur ár og það kemur mér sífellt á óvart hversu hratt þeir hopa. Með After Ice vonumst við til að þessar nýju myndir ásamt þulartexta úr smiðju M Jackson, jöklafræðings og rithöfundar, sýni með skýrum hætti hvaða áhrif aukinn styrkur góðurhúsalofttegunda í andrúmslofti hefur á náttúruna,“ segir Kieran Baxter.
„Þetta er mjög áhrifarík leið til að sýna breytingar en um leið fyllilega raunsæ þótt í sýndarheimi sé. Þannig má sýna fram á þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið vegna jöklabráðnunar á undanförnum áratugum. Að mínu mati markar þessi aðferð Kierans verulegt stökk fram á við í sjónrænni miðlun þekkingar um bráðnun jökla, stökk sem e.t.v. mætti jafna við byltingarkenndar skeiðmyndatökur James Balogs í Extreme Ice Survey verkefninu á síðasta áratug,“ segir Þorvarður.
Kieran bætir við að við upplifum nú fordæmalausa tíma. „Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að hlusta á sérfræðinga sem hafa það óumflýjanlega hlutverk að kortleggja leið okkar út úr loftslagsvánni. Okkar hlutverk er að draga þekkingu þeirra og niðurstöður fram í dagsljósið því það er þörf á sameiginlegu átaki þvert á fræðasvið og sérþekkingu fólks til að finna lausnir við vandanum,“ segir hann.
Allar myndatökur úr samtímanum voru unnar í góðu og gefandi samstarfi starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs við Þorvarð og Kieran. Eitt af meginmarkmiðum Vatnajökulsþjóðgarðs er fræðsla um náttúru og menningu. Verkefni eins og After Ice er því þarft framlagt til að miðla þeim gífurlega miklu áhrifum hamfarahlýnunar á Vatnajökul, jökla Íslands og í raun heimsins alls.