Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Ánægjuleg heimsókn frá starfsfólki tékkneska þjóðgarðsins Krkonoše

Þann 25. september síðastliðinn tók starfsfólk Snæfellsstofu á Skriðuklaustri á móti gestum frá Krkonoše-þjóðgarðinum (KRNAP).

9. október 2024
Ánægjuleg heimsókn frá starfsfólki Krkonoše

Þjóðgarðurinn liggur í norðurhluta Tékklands og í honum er fjallgarðurinn Krkonoše með hæsta fjalli landsins sem heitir Sněžka (1602 m.y.s.), en nafn þess þýðist bókstaflega sem „Snæfell“. Það er þó ekki það eina sem við eigum sameiginlegt: til dæmis er gróðurfar að nokkru leyti svipað í báðum þjóðgörðunum; annað blómanna sem prýðir merki KRNAP líkist meira að segja bláklukku (Campanula rotundifolia) sem er einkennandi á Austurlandi en blómið á merkinu (Campanula bohemica) er einlend tegund í Krkonoše sem þýðir að hún vex eingöngu á því svæði.

Merki Krkonoše-þjóðgarðsins

Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, bauð gestina velkomna og kynnti þjóðgarðinn og ólík svæði hans. Hópurinn var mjög áhugasamur og spurði margra spurninga, meðal annars um fræðsludagskrá þjóðgarðins, markmið fræðslunnar, stjórnskipulag, um viðhorf til sívaxandi fjölda ferðamanna á Íslandi, stýringu ferðamanna og breytingar á síðustu árum.

Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður ræðir við starfsfólk Krkonoše-þjóðgarðsins

Því næst gafst gestunum tækifæri til að teygja aðeins úr sér og skoða sýninguna í Snæfellsstofu og svo tók Martína Ýr Kasparova, landvörður, við. Á móðurmáli sínu – tékknesku – talaði hún um starf landvarða, nefndi helstu verkefnin og fjölbreytt hlutverk þeirra. Við það sköpuðust líflegar umræður um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í tékkneska þjóðgarðinum í samanburði við Vatnajökulsþjóðgarð; til dæmis kom í ljós að í KRNAP vinna miklu fleiri karlmenn en konur og að stærsta áskorunin fyrir starfsfólk KRNAP sé að þjóðgarðsgestir virði ekki lokanir og sæki í staði sem ættu að njóta verndar.

Að lokum var mögulegt framtíðarsamstarf þjóðgarðanna rætt og svo hélt hópurinn af stað í stutta vettvangsferð til að kynna sér brotabrot af austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.