Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Árétting vegna umfjöllunar í „Þetta helst“ á RÚV 31.október síðastliðinn

Vegna umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Þetta helst á RÚV, fimmtudaginn 31. október sl., þar sem fjallað var um veitingarekstur Munir Ahmed í Skaftafelli og slæman aðbúnað starfsfólks hans, vill Vatnajökulsþjóðgarður koma eftirfarandi á framfæri:

1. nóvember 2024

Ranglega kom fram í umfjöllun Þetta helst að veitingareksturinn í Skaftafelli sé enn í gangi. Hið rétta er að Vatnajökulsþjóðgarður hefur ekki framlengt rekstrarsamning sinn við félag Munirs Ahmed, Satvik ehf., en samkomulag þess efnis var undirritað 22. maí á þessu ári. Í samkomulaginu var gerð krafa um að starfsfólk yrði upplýst um fyrirhuguð lok rekstrarins og væri með gilda ráðningarsamninga, í þeirri von að þannig mætti betur tryggja rétt viðkomandi fólks. Samkvæmt samkomulaginu skyldi síðasti dagur rekstrarsamningsins vera 15. október sl.

Umrætt félag hafði haft rekstur veitingaþjónustu í Skaftafelli með höndum frá árinu 2022, að undangengnu útboði Vatnajökulsþjóðgarðs, en forsvarsmaður Satvik er nú umræddur Rehana Munir Ahmed. Félagið var áður einnig í eigu Viral Narendra Doshi, eða þar til um mitt ár 2023. Ekki er rétt, sem fram kom í fréttaþættinum, að þjóðgarðurinn hafi samið um þriggja ára framlengingu rekstrarsamnings við félagið eftir að ábendingar fóru að berast. Í fyrstu var samið til eins árs og reyndu stjórnendur þjóðgarðsins að fá rekstraraðilann til að gera úrbætur í starfsemi sinni. Gerðar voru fjöldi athugasemda við rekstur hans og aðbúnað og áður höfðu afskipti verið höfð af búsetumálum starfsfólks rekstraraðilans. Leitað var fulltingis verkalýðsfélaga og lögreglu í þessum tilgangi. Þá var starfsfólkinu leiðbeint um að hafa samband við verkalýðsfélagið Afl.

Þrátt fyrir að mál tengd rekstraraðilanum hafi komið til skoðunar hjá lögreglu þá hefur enn sem komið er ekkert komið út úr hugsanlegri rannsókn, eða út úr eftirliti verkalýðsfélaga. Ekki var því hægt að ljúka viðskiptasambandi við veitingaþjónustuna Satvik ehf. og fá annan til verksins með vísan til slíkra mála. Vatnajökulsþjóðgarður lauk hinsvegar samstarfinu á eigin forsendum og með samningi sem undirritaður var, eins og áður sagði, í maí síðastliðnum.

Það er miður að fréttastofa RÚV hafi ekki leitað skýringa hjá Vatnajökulsþjóðgarði áður en birt voru bæði í frétt og fyrirsögn röng og afar meiðandi orð formanns Afls í garð stofnunarinnar og einstakra starfsmanna hennar: „Vatnajökulsþjóðgarði er andskotans sama um aðbúnað starfsfólks“. Það er langt í frá að þjóðgarðurinn skeyti engu um eigið starfsfólk eða annarra. Líkt og rakið er hér að ofan þá brást þjóðgarðurinn við þessum ábendingum og starfsfólk og stjórnendur Vatnajökulsþjóðgarðs hafa átt fjölmarga fundi vegna þessa máls og hafa gert fjölda athugasemda við rekstraraðilann um rekstur hans og aðbúnað.

Vatnajökulsþjóðgarður lýsir engu að síður ánægju með að fjallað skuli um vafasama starfshætti aðila sem ekki virða réttindi starfsfólks eða sem verða uppvísir að slæmri framkomu við verkafólk í viðkvæmri stöðu.