Árið í Vatnajökulsþjóðgarði: Helstu vörður 2024
Árið hefur verið viðburðaríkt í þjóðgarðinum og hér er stiklað á stóru.
Vatnajökulsþjóðgarður er vinnustaður í fremstu röð 2023
Vatnajökulsþjóðgarður var á meðal þeirra vinnustaða sem uppfylltu skilyrði Moodup til að hljóta viðurkenninguna Vinnustaður í fremstu röð árið 2023. Með því að uppfylla þessi skilyrði hefur Vatnajökulsþjóðgarður sýnt í verki að stjórnendur hlusta á starfsfólk, sýna í verki að álit þess skiptir máli, og ná árangri þegar kemur að því að auka og viðhalda hárri starfsánægju.
Þjóðgarðurinn mætti á Mannamót 2024
Mannamót Markaðsstofa landshlutanna fór fram þann 18. janúar 2024 í Kórnum Kópavogi og Vatnajökulsþjóðgarður tók þátt að vanda. Þetta árið mætti þjóðgarðsvarðateymið á vestursvæði, þær Fanney Ásgeirsdóttir og Hanna Valdís Jóhannsdóttir, fyrir hönd þjóðgarðsins. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á vestursvæði undanfarin ár og ber þar helst að nefna nýja og glæsilega gestastofu, við Kirkjubæjarklaustur. Þar er starfsemi komin í fullan gang og formleg opnun fyrirhuguð á næstu vikum.
Formleg opnun Skaftárstofu
Það var blíðskaparveður sem tók á móti gestum Skaftárstofu þann 24. febrúar 2024 þegar nýja gestastofan á Kirkjubæjarklaustri var opnuð formlega. Gestir komu víða að og mátti þar sjá þingmenn og ráðherra, núverandi og fyrrverandi, vísindamenn, verktaka, heimafólk og aðra velunnara á meðal gesta.
Vefur Vatnajökulsþjóðgarðs tilnefndur til þriggja verðlauna á SVEF 2024
Vefur Vatnajökulsþjóðgarðs var tilnefndur til þriggja verðlauna á íslensku vefverðlaununum 2024. Mikil vinna fór í að endurnýja vefinn á síðustu árum og var hann formlega opnaður í apríl 2023. Markmiðið með nýjum vef Vatnajökulsþjóðgarðs er að leyfa stórbrotinni náttúru að skína í gegn og hrífa notendur með sér og sýna hvað þjóðgarðurinn hefur upp á að bjóða ásamt því að gera upplýsingar og gögn um þjóðgarðinn aðgengilegar á stafrænu formi.
Ársfundur Gígs og opið hús þar sem tvær listasýningar voru opnaðar
Ársfundur Gígs var haldinn 7. mars þar sem fulltrúar frá þeim stofnunum sem koma að notkun hússins komu saman til að ræða stöðuna og verkefnin fram undan. Stofnanir og aðilar sem hafa tekið þátt í uppbyggingu ásamt Vatnajökulsþjóðgarði eru: Umhverfisstofnun, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (Ramý), Náttúrufræðistofnun Íslands, Þingeyjarsveit, Þekkingarnet Þingeyinga , HULDA náttúruhugvísindasetur, Rannsóknasetur HÍ, Svartárkot menning - náttúra, Land og skógur og Mývatnsstofa. Einnig kom fulltrúi frá Náttúrufræðistofu Norðausturlands.
Gleði og samheldni á vinnudögum sem voru haldnir á austursvæði í mars
Það má segja að gleði og samheldni hafi einkennt vinnudaga Vatnajökulsþjóðgarðs sem haldnir voru á Fljótsdalshéraði dagana 13. - 15. mars 2024. Starfsfólk þjóðgarðsins er öflugt í að nýta sér tæknina til samvinnu og eru Teams fundir næstum daglegt brauð hjá flestu starfsfólki. Það er þó þannig að fátt kemur í staðinn fyrir að hittast í eigin persónu. Vinnudagarnir í Fljótsdalshreppi í síðustu viku voru því kærkomið tækifæri til að þétta raðirnar hjá þeim 50 öflugu einstaklingum sem tóku þátt.
Vefur Vatnajökulsþjóðgarðs hlaut tvenn verðlaun á SVEF
Vefur Vatnajökulsþjóðgarðs hlaut annað sæti í tveimur flokkum á íslensku vefverðlaununum fyrir árið 2023 sem afhent voru 15. mars, annars vegar í flokki Samfélagsvefa og hins vegar í flokki Opinberra vefa.
Ný stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skipuð
Í byrjun apríl skipaði umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs til næstu fjögurra ára. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs er skipuð samkvæmt 4. gr. laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð til fjögurra ára í senn. Í stjórninni sitja sjö fulltrúar: fjórir formenn svæðisráða þjóðgarðsins, einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum og tveir fulltrúar, formaður og varaformaður, skipaðir af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra án tilnefningar. Útivistarsamtök tilnefna einn fulltrúa og ferðamálasamtök einn sem eiga áheyrnaraðild á fundum stjórnarinnar. Varamenn eru skipaðir á sama hátt.
Eldur, ís og mjúkur mosi á Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars
Náttúruminjasafn Íslands og Vatnajökulsþjóðgarður tóku þátt í Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars í ár með sýningunni Eldur, ís og mjúkur mosi. Sýningin var afrakstur samstarfs stofnananna við sex grunn- og leikskóla í nágrenni þjóðgarðsins auk eins á höfuðborgarsvæðinu, og breiðs hóps hönnuða og listafólks í heimabyggð skólanna.
Þrjár sýningar opnuðu í Skaftafelli í maí
Föstudaginn 24. maí opnuðu þrjár sýningar í Skaftafellsstofu við mikinn fögnuð viðstaddra. Skaftafellsstofa hefur lengi þurft andlitslyftingu og var þessi opnun því kærkomin.
Fyrst ber að nefna fræðslusýninguna í aðalrými gestastofunnar þar sem fjallað er um Skaftafell á víðum grunni, allt frá jarðfræði svæðisins yfir í búsetu. Farið er yfir sögu Skaftafellsþjóðgarðs sem var stofnaður 1967 vegna náttúrufars og náttúrufegurðar. Frá 2008 hefur Skaftafell tilheyrt Vatnajökulsþjóðgarði sem er í dag kominn á heimsminjaskrá UNESCO. Því næst er sýningin Frá heimili til heimsminja í betri stofunni og er tileinkuð Laufeyju Lárusdóttur sem var húsmóðir í Skaftafelli. Laufey hafði brennandi áhuga á ljósmyndun og gefa myndirnar einstaka sýn inn í lífið í Hæðum fyrir og eftir stofnun þjóðgarðsins. Þær sýna að hluta til horfinn heim en einnig tók Laufey tímalausar myndir af gróðri og landslagi.
Fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs hófst
Fræðsla er einn af hornsteinunum í starfsemi þjóðgarðs. Í sumar er fjölbreytt fræðsla í boði, vítt og breitt um víðfem svæði þjóðgarðsins: Barnastundir, síðdegisrölt og sérstakir viðburðir eins og Dagur hinna villtu blóma og Alþjóðadagur landvarða. Landverðir og annað starfsfólk þjóðgarðsins standa síðan vaktina í gestastofum, á starfsstöðum þjóðgarðsins og úti í mörkinni, boðnir og búnir til að taka á móti ferðalöngum sumarins.
Eldur, ís og mjúkur mosi - listaverk á gestastofum þjóðgarðsins
Listaverk ungs listafólks í nærumhverfi Vatnajökulsþjóðgarðs voru til sýnis í öllum gestastofum þjóðgarðsins síðastliðið sumar.
Verkin eru afrakstur verkefnisins Eldur, ís og mjúkur mosi sem nemendur í sex grunn- og leikskólum í nágrenni þjóðgarðsins auk eins á höfuðborgarsvæðinu unnu í samstarfi við breiðan hóp listafólks. Vatnajökulsþjóðgarður og Náttúruminjasafn Íslands hlutu styrk fyrir verkefninu frá Barnamenningarsjóði Íslands seinasta vetur.
Herðubreiðarlindir fögnuðu 50 ára friðlýsingarafmæli í júlí
Í tilefni þess að í ár eru 50 ár liðin frá því að Herðubreiðarlindir voru friðlýstar var efnt til afmælishátíðar þann 27. júlí síðastliðinn í samstarfi við Ferðafélag Akureyrar.
Vatnajökull á lista yfir 100 merka jarðminjastaði
Tilkynnt var um nýjan lista yfir hundrað merka jarðminjastaði á jörðinni á Alþjóðlegri jarðfræðiráðstefnu í Busan í Suður-Kóreu dagana 25. – 31. ágúst. Tveir staðir á Íslandi eru á þeim lista, Reykjanes og Vatnajökull. Það er mikill heiður að Vatnajökull sé kominn á þennan lista en Vatnajökulsþjóðgarður var samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO árið 2019 þar sem hann er einstakur á heimsvísu vegna jarðsögu sinnar sem einkum er skrifuð af langvarandi átökum elds og íss.
Austursvæði kynnti störf í þjóðgarðinum á starfamessu á austurlandi
Starfamessa var haldin 19. september síðastliðinn í íþróttahúsinu á Egilsstöðum þar sem um 400 ungmenni (14-16 ára) af Austurlandi kynntu sér fjölbreytt störf í fjórðungnum. Megin markmiðið var að kynna störf og starfsgreinar í heimabyggð fyrir ungu fólki í landshlutanum, gefa nemendum tækifæri til þess að koma saman og efla samstarf á milli skóla og atvinnulífs.
Vatnajökulsþjóðgarður tók að sjálfsögðu þátt og lagði áherslu á starfið landvörður því það starf er kjarnastarf í þjóðgarðinum og á friðlýstum svæðum. Vissulega eru önnur störf í þjóðgarði og er hægt að nefna til dæmis bókari, mannvirkjafulltrúi, þjóðgarðsvörður, fræðslufulltrúi, mannauðsstjóri, launafulltrúi, fjármálastjóri. Óhætt er að segja að framtíðin sé björt eftir að hitta svona mörg ungmenni úr fjórðungnum.
Formleg opnun á Jöklasýn í október í Skaftafelli - ljósmyndavöktun á jöklabreytingum
Fimmtudaginn 3. október var formleg opnun á verkefninu Jöklasýn, Extreme Ice Survey Iceland (EISI) sem er samstarf Jöklarannsóknafélags Íslands og ljósmyndarans James Balog. Verkefnið er góð viðbót við fræðslu um jökla og jöklabreytingar í Skaftafelli, sem er megináherslan í fræðslu á svæðinu sem og í öllum þjóðgarðinum. Mikil ánægja er því með verkefnið innan þjóðgarðsins.
Vatnajökulsþjóðgarður tók þátt í ferðaþjónustudeginum
Ferðaþjónustudagurinn var haldinn í Silfurbergi í Hörpu 7. október síðastliðinn í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu, Vatnajökulsþjóðgarð, Umhverfisstofnun og Þingvallaþjóðgarð. Yfirskrift dagsins var álagsstýring á fjölsóttum ferðamannastöðum sem brennur á mörgum eins og gefur að skilja.
Vatnajökulsþjóðgaður hefur lokið fimm grænum skrefum
Í úttekt Umhverfisstofnunar í lok ágúst var það staðfest að Vatnajökulsþjóðgarður hefur lokið öllum fimm grænu skrefunum og var því fagnað af starfsfólki í október. Í úttekt Umhverfisstofnunar í lok ágúst var það staðfest að Vatnajökulsþjóðgarður hefur lokið öllum fimm grænu skrefunum.