Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Ársfundur Gígs og opið hús

Ársfundur Gígs var haldinn 7. mars og í kjölfarið var opið hús þar sem tvær listasýningar voru opnaðar.

26. mars 2024
Gestir virða fyrir sér listasýningarnar eftir ársfundinn / Nína Aradóttir

Ársfundur Gígs var haldinn 7. mars þar sem fulltrúar frá þeim stofnunum sem koma að notkun hússins komu saman til að ræða stöðuna og verkefnin fram undan. Stofnanir og aðilar sem hafa tekið þátt í uppbyggingu ásamt Vatnajökulsþjóðgarði eru: Umhverfisstofnun, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (Ramý), Náttúrufræðistofnun Íslands, Þingeyjarsveit, Þekkingarnet Þingeyinga , HULDA náttúruhugvísindasetur, Rannsóknasetur HÍ, Svartárkot menning - náttúra, Land og skógur og Mývatnsstofa. Einnig kom fulltrúi frá Náttúrufræðistofu Norðausturlands.

Að lokinni kynningarferð um húsið hófst formlegur fundur með því að Anna Þorsteinsdóttir, þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðs á Norðurhálendi, fór yfir stöðu framkvæmda og hvað er á áætlun. Dagbjört Jónsdóttir, svæðissérfræðingur Umhverfisstofnunar á Norðurlandi eystra, kynnti núverandi starfsemi í húsinu og dagskrána fram undan. Sérstök áhersla er lögð á hvað Gígur er lifandi vinnustaður og að mikið hafi verið lagt upp úr góðri aðstöðu fyrir starfsfólk. Gígur gegnir mikilvægri samfélagslegri ábyrgð sem snýr meðal annars að því að halda fasta viðburði og viðhalda góðri tengingu við samfélagið.

Anna þjóðgarðsvörður á Norðuhálendi setur ársfundinn / Stefanía Eir Vignisdóttir

Dagbjört svæðissérfræðingur á Norðurlandi Eystra segir frá núverandi starfsemi í húsinu / Nína Aradóttir

Öll sem sóttu fundinn kynntu sig stuttlega og hver aðkoma þeirra að húsinu væri. Mikið var rætt um ávinning af samstarfi og samvinnu. Arnþrúður Dagsdóttir, verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Þingeyinga, var með kynningu á verkefni sem hún vinnur fyrir Þingeyjarsveit um tækifæri á Gíg. Tilgangur verkefnisins er að meta hvert við stefnum, fyrir hverja og á hvaða forsendum.

Ingibjörg Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, og Anna, kynntu þjónustusamninga sem gerðir verða við fasta aðila Gígs og starfsemi húsráðs. Stefanía Eir Vignisdóttir, aðstoðarþjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðs á Norðurhálendi, sagði frá ferlinu við sýningarhönnunina fyrir gestastofuna og hver staðan er á því ferli. Að sýningunni vinna fransk-íslenska hönnunarfyrirtækið SP(R)INT STUDIO ásamt breska hönnunarfyrirtækinu Nissen Richards Studio og er hönnunarvinnan í fullum gangi, en stefnt er á að sýningin opni fyrri hluta árs 2025. Hulda María Þorláksdóttir, sérfræðingur Vatnajökulsþjóðgarðs á Norðurhálendi, talaði um grænu skrefin sem mikil áhersla er á í allri starfsemi í húsinu. Hún fór yfir húsreglur á Gíg sem voru samþykktar. Starfsfólksfélagið Kúluskítur var kynnt af Erlu Diljá Sæmundardóttur, yfirlandverði hjá Umhverfisstofnun á Norðurlandi Eystra, sem er mikilvægur þáttur í að viðhalda góðum starfsanda enda er metaðsókn í félagið. Að lokum fór Hulda yfir tillögur af nöfnum á rými hússins, en þau vísa í rýmin eins og þau voru þegar húsið var skóli. Voru tillögurnar samþykktar með lítilsháttar breytingum. Það verður gaman að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu og þróun á Gíg.

Erla Diljá yfirlandvörður segir frá Starfsfólksfélaginu Kúluskít / Nína Aradóttir

Eftir ársfundinn voru opnaðar tvær listasýningar á Gíg í tengslum við Vetrarhátíð í Mývatnssveit ásamt því að Auður Aðalsteinsdóttir, nýr forstöðumaður rannsóknarseturs HÍ í Þingeyjarsveit flutti erindið ,,Tröllahvískur í nýju samhengi: Vistrýni, þjóðsögur og truflandi tilvera annarra“.

Um listasýningarnar:

Nemendur Reykjahlíðarskóla hafa unnið verkið Eldur, ís og mjúkur mosi í vetur ásamt listakonunni Brynhildi Kristinsdóttur. Verkefnið, sem er samstarfsverkefni Vatnajökulsþjóðgarðs og Náttúruminjasafns Íslands, tengist hálendinu norðan Vatnajökuls. Verkið verður sýnt á Barnamenningarhátíð í Reykjavík í sýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar 23. - 28. apríl en verða aftur sett upp á Gíg að hátíðinni lokinni.

Listasýningin Náttúra Þingeyjarsveitar, samanstendur af margskonar verkum sem öll tengjast náttúru Þingeyjarsveitar, allt frá því smáa til þess stórbrotna og yfir í það hversdagslega. Verkin eru gömul klassísk verk sem og ný verk eftir unga og upprennandi listamenn, þar á meðal öll leikskólabörn Mývatnssveitar.

Auður Aðalsteinsdóttir, nýr forstöðumaður rannsóknarseturs HÍ í Þingeyjarsveit flutti erindið ,,Tröllahvískur í nýju samhengi: Vistrýni, þjóðsögur og truflandi tilvera annarra“. / Stefanía Eir Vignisdóttir

Listaverkin skoðuð með stækkunargleri / Nína Aradóttir

Gestir á opnu húsi / Nína Aradóttir