Beint í efni

Ársskýrsla 2023

Ársskýrsla Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir árið 2023 er komin út. Í skýrslunni er farið yfir helstu atriði í starfsemi þjóðgarðsins og ýmis tölfræði borin saman við fyrri ár.

20. ágúst 2024
Vatnajökull / Þorsteinn Roy

Ávarp framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs

Kraftur og gleði einkenndi starfið í Vatnajökulsþjóðgarði árið 2023. Árið var ár hátíðarhalda og stórviðburða, mannamóta, gjöfuls samstarfs og fjölbreyttrar fræðslu og miðlunar, auk hefðbundinna verkefna í landvörslu og móttöku gesta. Komdu og upplifðu Vatnajökulsþjóðgarð eru inngangsorð nýrrar og glæsilegrar vefsíðu þjóðgarðsins sem tekin var í notkun um mitt árið. Þau orð kjarna ágætlega leiðarljós þjóðgarðsins í hinu daglega starfi.

Tvær nýjar gestastofur voru opnaðar árið 2023, önnur á Kirkjubæjarklaustri í glæsilegri nýbyggingu vestan Skaftár, og hin á bökkum Mývatns á Skútustöðum í samstarfi við Umhverfisstofnun. Gestastofurnar eru þá orðnar fimm á meginstarfsstöðvum þjóðgarðsins og við hafa bæst tveir nýir og spennandi áfangastaðir fyrir gesti sem vilja njóta fallegs útsýnis og fræðast um náttúru og sögu næsta nágrennis.

Sýningin „Hvað býr í þjóðgarði“ var opnuð í Perlunni um mitt ár í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands. Samhliða stóðu Náttúruminjasafn Íslands og Vatnajökulsþjóðgarður fyrir ýmsum sameiginlegum viðburðum og verkefnum. Samstarfsverkefnið „Eldur, ís og mjúkur mosi“, fékk styrk úr Barnamenningarsjóði, en þar voru leiddir saman listamenn og nemendur grunnskóla úr nágrenni þjóðgarðsins, auk eins skóla af höfuðborgarsvæðinu.

Ingibjörg Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs

Mikill fögnuður ríkti um miðjan júní þegar boðað var til hátíðar í botni Ásbyrgis í tilefni af 50 ára afmæli þjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum. Hátíðin var í anda gömlu Ásbyrgishátíðanna, þar sem farið var í leiki og boðið upp á tónlistaratriði og ræðuhöld. Íbúar og velunnarar létu sig ekki vanta og gleðin skildi eftir sig hlýju í hjarta starfsfólks langt fram eftir árinu.

Þjóðgarðurinn stóð fyrir eða tók þátt í fjölda annarra viðburða. Haldin var ráðstefna norrænna UNESCO heimsminjastaða á Kirkjubæjarklaustri sem bar yfirskriftina „Samfélag og samvinna – í sátt við náttúruna“. Þá tók þjóðgarðurinn meðal annars þátt í afmælisráðstefnum Samtaka ferðaþjónustunnar og Ferðaklúbbsins 4x4, Mannamóti markaðsstofa landshlutanna og málþingi Ferðamálastofu og Félags íslenskra fjallaleiðsögumanna um öryggi ferðafólks. Samstarf sem þetta er þjóðgarðinum afar verðmætt og styður vel við markmið þjóðgarðsins.

Sú orka og lífsfylling sem fylgir því að dvelja og starfa í íslenskri náttúru skilar sér án efa í þeim krafti og gleði sem einkenndi starfið í þjóðgarðinum á árinu. Starfsfólk þjóðgarðsins þakkar gestum, samstarfsaðilum, íbúum og öðrum ánægjulegt samstarf og gleðistundir á árinu og hlakkar til áframhaldandi samveru í framtíðinni.

Ársskýrsla 2023

Ársskýrsla Vatnajökulsþjóðgarðs er að finna í heild sinni hér.