Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Auglýst er eftir umsóknum um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði

Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir eftir umsóknum frá rekstraraðilum sem óska eftir að bjóða upp á íshellaferðir og/eða jöklagöngur í atvinnuskyni á tilteknum jöklum frá 1. desember 2024 til 30. september 2025.

20. nóvember 2024
Sharad Kandoi / Unsplash

Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir eftir umsóknum frá rekstraraðilum sem óska eftir að bjóða upp á íshellaferðir og/eða jöklagöngur í atvinnuskyni á eftirfarandi jöklum frá 1. desember 2024 til 30. september 2025:

  • Breiðamerkurjökull austur
  • Breiðamerkurjökull vestur
  • Falljökull/Virkisjökull
  • Skeiðarárjökull

Samkvæmt 15. gr. a laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007 er óheimilt að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð, sbr. einnig V. kafla reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.

Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir því eftir umsóknum frá þeim rekstraraðilum sem vilja bjóða upp á íshellaferðir og/eða jöklagöngur í atvinnuskyni á framangreindum jöklum. Gerðir verða rekstrarleyfissamningar samkvæmt lögum um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni nr. 100/2021 og 15. gr. a. laga um Vatnajökulsþjóðgarð við þá umsækjendur sem uppfylla nánar tiltekin skilyrði. Hægt er að sækja um heimild til rekstrar á fleiri en einu svæði. Samningarnir munu gilda til 30. september 2025.

Skilyrði sem rekstraraðilar þurfa að uppfylla og sýna fram á í umsóknargögnum eru eftirfarandi:

  • Hafa gilt leyfi til reksturs ferðaskrifstofu eða ferðasala dagsferða frá Ferðamálastofu, sbr. lög um Ferðamálastofu nr. 96/2018. Umsækjandi skal vera handhafi leyfisins.
  • Hafa í gildi ábyrgðartryggingu samkvæmt lögum um Ferðamálastofu nr. 96/2018.
  • Hafa sett sér ítarlega umhverfis- og sjálfbærnistefnu og markmið um að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar. Stefnan skal ná til náttúru þjóðgarðsins og tryggja að hún verði ekki fyrir skemmdum af völdum starfseminnar og þarf að lágmarki að innihalda eftirfarandi þætti:

- Markmið um lágmörkun umhverfisáhrifa

- Aðgerðaráætlun um framfarir

- Mælitæki um árangur

- Upplýsingar um ábyrgðaraðila

  • Vera með skriflegar, gildar öryggisáætlanir sem ná yfir allar ferðir rekstraraðila á viðkomandi svæði, sbr. IV kafla laga um Ferðamálastofu. Skulu öryggisáætlanir vera í samræmi við eðli starfseminnar og tryggja fullnægjandi öryggi gesta í ferðum rekstraraðilans.
  • Leggja fram gátlista um öryggisbúnað í ferðum og staðfestingu á þjálfun og reynslu leiðsögumanna. Leiðsögumenn fyrirtækisins skulu hafa lokið þjálfun samkvæmt stöðlum AIMG með jákvæðri umsögn eða sambærilegri þjálfun. Yfirleiðsögumaður skal að lágmarki hafa lokið jökla 3 námskeiði samkvæmt stöðlum AIMG.

Aðferðir við mat á áhættu í íshellum í Vatnajökulsþjóðgarði má nálgast hér.

Að hámarki verða veitt 30 leyfi til rekstraraðila sem vilja bjóða upp á íshellaferðir og/eða jöklagöngur á fyrrnefndu tímabili. Hægt er að sækja um leyfi fyrir annað hvort íshellaferðir eða jöklagöngur eða hvor tveggja með sömu umsókn.

Ef heildarfjöldi umsókna sem berast þjóðgarðinum verða fleiri en heildarfjöldi þeirra leyfa sem veitt verða skulu eftirfarandi atriði notuð við mat og val á umsóknum með þeim hætti að þær umsóknir sem hljóta flest heildarstig fá forgang til samningsgerðar (sjá nánar í matskvarða):

Nr.ForsendurStig
1Reynsla af íshellaferðum og/eða jöklagöngum á viðkomandi svæði Vatnajökulsþjóðgarðs50
2Reynsla af íshellaferðum og/eða jöklagöngum á Íslandi (þ.m.t. á Vatnajökli)5
3Við skipulag ferðar er sérstök áhersla lögð á upplifun gesta og gæði: a) í hverri ferð er veitt fræðsla um þjóðgarðinn, loftslagsbreytingar og öryggismál (5 stig) b) rekstraraðili fer að hámarki með 50 gesti á dag á viðkomandi svæði (5 stig) c) yfirleiðsögumaður hefur lokið jökla 3 námskeiði á vegum AIMG (15 stig)25
4Tækjakostur og búnaður umsækjanda10
5Upplýsingar um hvernig umsækjandi hyggst stunda reksturinn út frá umhverfissjónarmiðum10
1-5Heildarstigafjöldi100

Óskað er eftir því að umsækjandi skýri í umsókn sinni hvort, og þá hvaða, reynslu hann hafi af íshellaferðum og/eða jöklagöngum og þá á hvaða landsvæði, lýsi fyrirkomulagi ferða m.t.t. gæða, sbr 3. tölul. ofangreindrar töflu (fyrirkomulag ferða, áætlaður fjöldi gesta á dag), hvaða tækjakosti, aðstöðu og búnaði viðkomandi búi yfir, eða muni búa yfir, og upplýsingar um það hvernig umsækjandi hyggst stunda rekstur sinn út frá umhverfissjónarmiðum.

Mat á fyrrnefndum atriðum byggir á innsendum gögnum umsækjanda.

Vatnajökulsþjóðgarður hvetur umsækjendur til að vera með vottun Vakans eða sambærilega vottun í gildi, þó slík vottun sé ekki skilyrði.

Í samningsskilmálum er gert ráð fyrir að rekstraraðilar skuldbindi sig til að taka þátt í starfi fagráðs og daglegu stöðumati á öryggi ísmyndana, rannsókn á þolmörkum viðkomandi svæðis og í að bæta aðgengi á einstökum áfangastöðum á jökli með tilliti til öryggis gesta og verndar umhverfis. Vatnajökulsþjóðgarður hvetur samningsaðila til samráðs um góða nýtingu svæðisins í ljósi sjálfbærni, öryggis og umhverfisáhrifa.

Við undirritun samnings greiðir umsækjandi 100.000 kr. umsýslugjald vegna móttöku umsóknar, málsmeðferðar og samningsgerðar, sbr. reglugerð nr. 1580/2023 um gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu.

Jafnframt skulu þeir rekstraraðilar sem fá heimild til ferða á jökla þjóðgarðsins greiða mánaðarlegt veltugjald allan samningstímann, sbr. ákvæði laga um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni nr. 100/2021. Veltugjald að upphæð kr. 300.- reiknast á hvern viðskiptavin fyrirtækisins sem fer í íshellaferð og/eða jöklagöngu á þessum svæðum.

Allar þær sértekjur sem aflað er með innheimtu veltugjalds verða nýttar til þeirra þátta sem snúa að umræddri atvinnustarfsemi, s.s. vegna viðgerða og viðhalds á vegum að jökli, vernd umhverfis, öryggis og þjónustu við gesti. Að auki er veltugjaldið notað til þess að standa straum af vinnu fagráðs.

Aðferðir við mat á áhættu í íshellum í Vatnajökulsþjóðgarði má nálgast hér.

Að hámarki verða veitt 30 leyfi til rekstraraðila sem vilja bjóða upp á íshellaferðir og/eða jöklagöngur á fyrrnefndu tímabili. Hægt er að sækja um leyfi fyrir annað hvort íshellaferðir eða jöklagöngur eða hvor tveggja með sömu umsókn.

Ef heildarfjöldi umsókna sem berast þjóðgarðinum verða fleiri en heildarfjöldi þeirra leyfa sem veitt verða skulu eftirfarandi atriði notuð við mat og val á umsóknum með þeim hætti að þær umsóknir sem hljóta flest heildarstig fá forgang til samningsgerðar (sjá nánar í matskvarða):

Umsóknum ásamt fylgigögnum skal skilað í gegnum þjónustugátt Vatnajökulsþjóðgarðs (eyðublað 109) eigi síðar en á hádegi 27.11.2024

Vatnajökulsþjóðgarður áskilur sér rétt til að hafna umsóknum frá aðilum sem hafa ekki uppfyllt samningsskilmála í fyrri samningum við þjóðgarðinn.

Þeir samningar sem nú eru auglýstir gilda til 30. september 2025 en vonir standa til þess að þeir samningar sem gerðir verði að ári liðnu verði til lengri tíma. Nú stendur yfir vinna við þolmarkagreiningu og verið er að skoða hvort tilefni sé til að gera frekari kröfur til samnings­hafa og starfsmanna þeirra. Í því kunna m.a. að felast takmarkanir á fjölda samninga á næsta tímabili, s.s. með sérleyfum, eða frekari fjöldatakmarkanir.

Vatnajökulsþjóðgarður áskilur sér rétt til að vísa frá öllum umsóknum eða hafna einstökum umsóknum uppfylli þær ekki skilyrði sem tilgreind eru í auglýsingu þessari og/eða ef fullnægjandi gögn fylgja ekki umsókn, sbr. 2. mgr. 35. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.