Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Auglýsing um lóð við Bræðrafell

Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir eftir aðila til að nýta lóð við Bræðrafell í Ódáðahrauni.

22. nóvember 2023

Lóðin er afmörkuð innan þjóðlendunnar „Þjóðlenda í Ódáðahrauni“ og hefur verið stofnuð í fasteignaskrá. Um er að ræða 900 m2 lóð sem ber heitið „Bræðrafell“ með landnúmerinu 222532. Lóðin er afmörkuð á grundvelli gildandi aðalskipulags Skútustaðahrepps 2011-2023 (sem er nú hluti af aðalskipulagi Þingeyjarsveitar). Á lóðinni stendur einn gönguskáli sem í skipulagi er merktur 506-F.

Á grundvelli 3. mgr. 15. gr. b í lögum nr. 70/2006, um Vatnajökulsþjóðgarð, fer þjóð­garðurinn með leyfisveitingar í þjóðlendum innan sinna marka. Undanskildar eru leyfisveitingar sem varða vatns- og jarðhitaréttindi, vindorku, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu, en veiting þeirra leyfa er á hendi forsætisráðuneytis sbr. 2. mgr 3. gr. laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Í stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs (3. útg. 2022) er gönguskáli við Bræðrafell skilgreindur sem þjónustueining fyrir gesti þjóðgarðsins. Hluti Ódáðahrauns bættist við Vatnajökulsþjóðgarð með stækkun hans árið 2019 og er vinna hafin við gerð viðauka við gildandi stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið.

Engin frekari uppbygging er fyrirhuguð á lóðinni. Almenningur skal eiga umferðarrétt um lóðina.

Um er að ræða leyfi með gildistíma frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2043 með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn í allt að fjögur skipti, eða í heild til dagsins 31. nóvember 2063.

Þættir sem einkum verður litið til við ákvörðun um leyfisveitingu á umræddu svæði eru eftirfarandi, en ekki skal litið svo á að röðun þeirra gefi til kynna vægi einstakra skilmála innbyrðis:

  • Upplýsingar um hvernig umsækjandi hyggst nýta auglýsta lóð við Bræðrafell.
  • Að rekstri á lóðinni skal standa óhagnaðardrifið félag sem starfar í almannaþágu.
  • Þekking og reynsla umsækjanda af ferðaþjónustu á hálendinu.

Öll nýting á lóðinni er á kostnað og ábyrgð leyfishafa. Á svæðinu stendur nú gönguskáli, byggður árið 2016, 44,4 m2 að stærð. Mannvirkið er í eigu Ferðafélags Akureyrar sem hefur verið með starfsemi á svæðinu til þessa. Ef breyting verður á lóðarhafa á svæðinu verður nýjum lóðarhafa skylt að kaupa skálann í samræmi við verðmat löggilts fasteignasala.

Um lóðarleigu fer samkvæmt reglum, staðfestum af fjármála- og efnahagsráðuneyti, um afgjöld fyrir afnot af landi í eigu ríkissjóðs.

Áhugasamir aðilar eru vinsamlegast beðnir um að senda tillögu að notkun á umræddu svæði til Vatnajökulsþjóðgarðs á netfangið [email protected], eigi síðar en 15. desember nk. kl. 15:00. Vatnajökulsþjóðgarður áskilur sér rétt að hafna þeim tillögum sem berast.