Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Auglýsing: Viðauki við stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs, vegna Breiðamerkursands

Viðauki við stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs vegna Breiðamerkursands er nú kominn í opið samráðsferli.

29. janúar 2021
Breiðamerkursandur, Þröng, Breiðamerkurjökull, Þorvarður Árnason
Breiðamerkursandur, Þröng, Breiðamerkurjökull, Þorvarður Árnason

Viðauki við stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs vegna Breiðamerkursands er nú kominn í opið samráðsferli. Breiðamerkursandur varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði um mitt ár 2017 og fljótlega eftir það hófst undirbúningur fyrir gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið.

Gerður var samningur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði, Náttúrustofu Suðausturlands og Nýheima þekkingarsetur um ráðgjöf og vinnu við gerð tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand. Ráðgjafahópurinn tók saman greinargerð þar sem finna má nánari upplýsingar um tillöguna.

Við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Vatnajökulsþjóðgarð er lögð aukin áhersla á samráð. Lög og reglugerð um þjóðgarðinn kveða á um hlutverk svæðisráðs varðandi samráð við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands og eftir atvikum aðrar hlutaðeigandi fagstofnanir ríkisins (Lög nr. 60/2007, 12. grein). Svæðisráð skal enn fremur tryggja samráð við landeigendur, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila á svæðinu.

Viðaukann, greinargerðina og önnur skjöl sem tengjast vinnunni, má finna hér.

Vatnajökulsþjóðgarður óskar eftir athugasemdum við viðaukann og skulu þær berast á netfangið [email protected] ekki seinna en 15. mars n.k. Eintök af viðauka og greinargerð munu liggja frammi í Gömlubúð á Höfn, í Skaftafellsstofu, í Ráðhúsi Hornafjarðar, og í afgreiðslu í húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands í Garðabæ.

Nánari upplýsingar veitir Steinunn Hödd Harðardóttir, starfandi þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, í síma 470 8332.