Beint í efni

Auglýst eftir umsóknum um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði

Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir samkvæmt 35. og 36. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 300/2020 eftir umsóknum frá rekstraraðilum sem óska eftir að bjóða upp á jöklagöngur í atvinnuskyni tímabilið 1. maí 2022 – 30. september 2022. Umsóknarfrestur er til 20. apríl.

4. apríl 2022

Um er að ræða jöklagöngur í atvinnuskyni á eftirtöldum jöklum:

  • Breiðamerkurjökull austur
  • Breiðamerkurjökull vestur
  • Falljökull/Virkisjökull
  • Skeiðarárjökull

Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð er óheimilt að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð, sbr. einnig 15. gr. a laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007.

Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir eftir umsóknumfrá þeim sem bjóða vilja upp jöklagöngur á framangreindum jöklum. Gerður verður samningur við þá umsækjendur sem uppfylla tilgreind skilyrði. Hægt er að sækja um heimild til rekstrar á fleiri en einu svæði.

Skilyrði sem rekstraraðilar þurfa að uppfylla og sýna fram á í umsóknargögnum eru eftirfarandi:

  • Hafa í gildi leyfi Ferðamálastofu sem ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða, sbr. lög nr. 96/2018 um Ferðamálastofu. Umsækjandi skal vera handhafi leyfisins.
  • Hafa í gildi ábyrgðartryggingu samkvæmt lögum um Ferðamálastofu.
  • Hafa sett sér umhverfisstefnu og markmið um að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar og tryggja að náttúra þjóðgarðsins verði ekki fyrir skemmdum af völdum starfseminnar.
  • Vera með skriflegar öryggisáætlanir sem ná yfir allar ferðir rekstraraðila á viðkomandi svæði, sbr. lög um Ferðamálastofu nr. 96/2018. Öryggisáætlanirnar skulu vera í samræmi við eðli starfseminnar og tryggja að öryggi gesta í ferðum rekstraraðilans verði fullnægjandi.
  • Leggja fram gátlista um öryggisbúnað í ferðum og staðfestingu á þjálfun og reynslu leiðsögumanna. Leiðsögumenn fyrirtækisins skulu hafa lokið þjálfun samkvæmt stöðlum AIMG með jákvæðri umsögn eða sambærilegri þjálfun.

Vatnajökulsþjóðgarður hvetur umsækjendur til að vera með vottun Vakans eða sambærilega vottun.

Í samningsskilmálum er gert ráð fyrir að rekstraraðilar skuldbindi sig til að taka þátt í rannsókn á þolmörkum viðkomandi svæðis. Jafnframt er gert ráð fyrir að rekstraraðilar taki þátt í að bæta aðgengi á einstökum áfangastöðum á jökli með tilliti til öryggis gesta og verndar umhverfis.

Nánari upplýsingar um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði og verklagsreglur um afgreiðslu umsókna má nálgast á vef þjóðgarðsins. Vatnajökulsþjóðgarðs . Sjá einnig www.vakinn.is og www.ferdamalastofa.is. Einnig má senda fyrirspurn á póstfangið [email protected].

Umsóknum ásamt fylgigögnum skal skilað í gegnum þjónustugátt Vatnajökulsþjóðgarðs eigi síðar en 20. apríl 2022. Vatnajökulsþjóðgarður áskilur sér rétt til að vísa frá öllum umsóknum eða hafna einstökum umsóknum uppfylli þær ekki skilyrði sem tilgreind eru í auglýsingu þessari og/eða ef fullnægjandi gögn fylgja ekki umsókn, sbr. 2. mgr. 35. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.

Gjaldtaka fyrir gerða samninga byggir á ákvæðum reglugerðar um gestafjölda innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu nr. 601/2020. Gjald fyrir hvern samning er 50.000 kr.