Auknar mælingar vegna landriss í Öskju
Það hefur sennilega ekki farið framhjá landanum að undanfarnar vikur hefur orðið vart við aukið landris í Öskju.
Veðurstofa Íslands ásamt öðrum stofnum hefur unnið ötullega að því í haust að þétta net mælitækja á svæðinu, sem þó er ekki hlaupið að enda Askja nánast á miðhálendi Íslands. Gott samstarf er á milli vísindamanna og starfsmanna þjóðgarðsins.
Landris fór að mælast við Öskju í byrjun ágúst. Askja er virk eldstöð og þar mælast reglulega skjálftar, en síðast gaus í Öskju árið 1961. Landrisið sást bæði á þeirri einu GPS stöð sem fyrir var í miðju öskjunnar í Öskju sem og á InSAR myndum. Í byrjun september lýstu almannavarnir yfir óvissustigi sem enn ríkir. Eftirlit var aukið og meðan veður og færð leyfði jók lögreglan viðveru á svæðinu Til að viðhalda getu Veðurstofunnar til að vakta landrisið í Öskju var því afráðið í samráði við Almannavarnir, Vísindamenn og Vatnajökulsþjóðgarð að bæta við þremur nýjum GPS stöðvum í Öskju. Einnig var bætt við tveimur skjálftamæltum og tveimur vefmyndavélum. Vefmyndavélunum er beint að virkustu jarðhitakerfunum í Öskju; beint yfir Öskjuvatn og svo í átt að Mývetningahrauni.
Aðstæður í og við Öskju eru mjög krefjandi. „Veðurstofan rekur mælakerfi sem samanstendur af rúmlega 800 mælitækjum og mörg hver eru staðsett utan hefðbundis farsímasambands og ekki tengd raforkukerfi landsins. Það getur því verið mikil áskorun að útbúa mælibúnað þannig að hann þoli veðráttu landsins og noti um leið litla orku en sé í stöðugu sambandi við fjarskiptakerfi“ (úr frétt frá Veðurstofu Íslands). Inni í öskjunni sjálfri er lítið sem ekkert GSM samband. Til að mælitækin getið „talað við umheiminn“, ef svo má segja, er endurvarpi staðsettur á norðanverðum öskjurimanum sem tengir GPS tækin við umheiminn. Þessi endurvarpi bilaði í haust en í leiðangri nú í október tók að skipta um radíó og fá endurvarpann í lag og þar með að fá upplýsingar frá tækjum á vettvangi.
Þétting mælitækja við Öskju tryggir Veðurstofunni betri vöktun á landrisinu í vetur og fram á sumar. Starfsmenn þjóðgarðsins fylgjast grannt með þróun mála og Anna Þorsteinsdóttir, þjóðgarðsvörður á norðurhálendi, er í reglulegu samtali við vísindamenn, lögreglu og almannavarnir á svæðinu. Ljóst er þó að rekstur mælitækjanna verður áfram mikil áskorun og að gífurlega krefjandi getur verið að þjónusta stöðvarnar að vetrarlagi. Veðurstofan deildi á fésbókarsíðu sinni myndbandi frá síðasta leiðangri sínum á svæðið sem sýnir vel þær krefjandi aðstæður sem vísindamenn á hálendi Íslands þurfa að geta tekist á við. Við mælum með að lesendur kíki á myndbandið og hafi hljóðið á!
Fréttinn er byggð á áður birtri frétt á vef Veðurstofu Íslands.