Björgunarfélag Hornafjarðar í æfingaferð á nýjum vélsleðum
Félagar í Björgunarfélagi Hornafjarðar nýttu veðurblíðuna sem verið hefur síðustu daga til þess að æfa sig á nýjum vélsleðnum. Farið var upp á Skálafellsjökul og ekið í Svöludal, upp á Kaldárnúp og Grjótarbotnstind.

Nýlega fjárfesti Björgunarfélag Hornafjarðar í nýjum vélsleðum. Björgunarfélag Hornafjarðar er sú björgunarsveit sem er með hvað skemmstan viðbragðstíma þegar kemur að útkalli á Vatnajökli og því koma nýir sleðar sér án efa vel komi til óhappa á jöklinum.
Félagar í Björgunarfélagi Hornafjarðar nýttu veðurblíðuna sem verið hefur síðustu daga til þess að æfa sig á nýju sleðunum. Farið var upp á Skálafellsjökul og ekið í Svöludal, upp á Kaldárnúp og Grjótarbotnstind.
Mikilvægt er fyrir samfélögin í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs að þar séu starfræktar vel útbúnar björgunarsveitir sem geta sinnt útköllum á víðáttumiklu landsvæði þjóðgarðsins. Starfsmenn þjóðgarðsins eru einnig margir hverjir meðlimir í björgunarsveitum á sínum svæðum sem styður við gagnkvæma þekkingu og samvinnu þegar kemur að útköllum.
Vatnajökulsþjóðgarður óskar Björgunarfélagi Hornafjarðar til hamingju með nýju sleðana.

Við snjólínu við Skálafellsjökul

Horft yfir Kálafellsdal til Esjufjalla

Þverártindsegg og Öræfajökull í baksýn

Horft frá Karli og Kerlingu yfir Kálfafellsdal