Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Breskir háskólanemar mældu hörku steina og þvermál skófa framan við Skaftafellsjökul

Það er alltaf ánægjulegt að fá skólahópa í þjóðgarðinn og öll skólastigin eru velkomin, hvort sem um er að ræða leik-, grunn- framhalds- eða háskóla. Í lok mars var hópur jarðfræðinema frá Háskólanum í Exeter við rannsóknir í Skaftafelli en nemendur þaðan hafa komið í vorferðir í þjóðgarðinn í mörg ár.

19. apríl 2022

Bresku nemendurnir frá Háskólanum í Exeter.

Verkefni skólahópsins frá Exeter í Bretlandi fólst í að skoða landið framan við skriðjökla og að þessu sinni var rannsóknarsvæði þeirra framan við Skaftafellsjökul. Hópurinn fékk leyfi til að vinna utan merktra gönguleiða enda voru kennarar kunnugir staðháttum og lögðu áherslu á góða umgengni. Almenna reglan er auðvitað sú að gestir haldi sig á merktum gönguleiðum. Nemendur unnu í fjórum hópum og gerðu margs konar mælingar framan við jökulinn. Ekkert var fjarlægt og ekkert var skemmt.

Fyrri myndin sýnir hópinn undirbúa sig fyrir vettvangsferð. Þegar rannsókir eru framkvæmdar utan hefðbundinna gönguleiða eru gul vesti iðulega notuð til að gefa öðrum gestum til kynna að þar séu ekki almennir gestir á ferð heldur sé einhver vinna í gangi. Markmiðið er að hinn stóri gestahópur haldi sig á göngustígunum til að koma í veg fyrir rask á jarðminjum og lífríki.

Á myndinni hér fyrir neðan sést einn hópurinn nota Schmidt Hammer (einnig nefndur Rebound eða Swiss hamar) til að mæla hörku steina: harkan er meiri eftir því sem styttra er síðan steinninn kom undan jöklinum, þá hefur hann fengið minni tíma til að veðrast. Annar nemandi mælir þvermál grænu skófanna á steinunum. Fyrstu 7 árin eftir að steinn kemur undan jökli eru engar skófir en síðan stækka þeir með tímanum. Nemendurnir fundu því engar skófir á steinunum sem voru við jökullónið framan við Skaftafellsjökul, þar var of skammt um liðið frá því jökulinn huldi steinana þar.