Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Ný gjaldskrá Vatnajökulsþjóðgarðs – innheimta svæðisgjalda á Jökulsárlóni

Á fundi sínum þann 28. nóvember 2022, afgreiddi stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs tillögur um fyrirkomulag gjaldtöku á árinu 2023. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur nú sett reglugerð á grundvelli þessara tillagna sem tók gildi 1. mars.

3. mars 2023
Gestir Vatnajökulsþjóðgarðs við Jökulsárlón / Mynd: Stefanía R. Ragnarsdóttir.

Reglugerðin felur í sér að fjárhæðir gestagjalda taka verðlagsbreytingum frá síðustu gjaldskrá sem tók gildi um mitt ár 2021. Þá er fyrirkomulagi gjaldtöku á tjaldsvæðum þjóðgarðsins breytt úr því að miðast við fjölda næturgesta yfir í gjald fyrir tjaldstæði þar sem allt að sex manns mega gista. Fjárhæðir þessara tjaldstæðisgjalda koma fram í reglugerðinni.

Í 7. gr. reglugerðarinnar er fjallað um svæðisgjald, en sú gjaldtaka felur í sér aðferð við tekjuöflun sem ætlað er að standa að hluta undir þjónustu sem gestir eiga kost á í Vatnajökulsþjóðgarði. Um er að ræða gestagjöld „fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu til að mæta kostnaði við þjónustu og eftirlit með dvalargestum“ eins og segir í 21. gr. laga nr. 60/2007, um Vatnajökulsþjóðgarð. Um er að ræða eiginleg þjónustugjöld hins opinbera og gilda meginreglur laga um innheimtuna.

Rökin fyrir gjaldtökunni eru að þeir sem nýta þjónustuna í þjóðgarðinum taki þátt í að greiða fyrir þann kostnað sem fylgir náttúruvernd og rekstri þjónustusvæðis þar sem njóta má einstakrar náttúru á heimsvísu.

Frá því um haustið 2017 hafa verið innheimt svæðisgjöld í Skaftafelli. Þjónusta sem gestir fá aðgang að með greiðslu svæðisgjalds felst í bílastæðum, gestastofu, salernum, fræðslu og leiðbeiningum frá landvörðum, aðgangi að gönguleiðum og þátttöku í fræðslugöngum með leiðsögn landvarða þegar þær eru á dagskrá. Kostnaðarliðir að baki svæðisgjaldinu fela því í sér eftirfarandi þætti: Landvörslu, þrif salerna og umhverfis, sorplosun og umhirðu sorps, losun rotþróa og tengdur kostnaður, viðhald salernis­aðstöðu, leigu á salernisaðstöðu, úrbætur á aðstöðu og aðgengi í nærumhverfi, viðhald stíga, merkinga o.fl., merkingar og viðhald bílastæða, breytingar á vegstæðum og aðkomuleiðum og innheimtu- og þjónustukostnað.

Svæðisgjaldið er lagt á þegar ökutæki kemur að hliði á bílastæði og er upphæð háð stærð bifreiðar. Er það gert á þeim grundvelli að samhengi sé á milli mögulegs farþegafjölda og stærðar hlutaðeigandi ökutækis, sem endurspegli hlutdeild í þeirri þjónustu sem gjaldtakan í heild byggist á. Svæðisgjald gildir að hámarki í sólarhring (frá 00:00 - 24:00).

Í ákvæði til bráðabirgða með nýju reglugerðinni kemur fram að innheimta svæðisgjalds muni hefjast þann 1. júní n.k. við innkeyrslur að öllum þjónustusvæðum við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, sem teljast þó eitt og sama gjaldsvæðið.

Þjónustusvæði í Skaftafelli - Á árinu 2023 verður áfram innheimt svæðisgjald eins og verið hefur en fjárhæð gjaldsins hækkar frá því sem ákveðið var fyrir árið 2021, þ.e. úr 750 kr. í 1.000 kr. Hækkunin í Skaftafelli tekur gildi þann 30. mars 2023.

Þjónustusvæði við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi - Álagning 1.000 kr. svæðisgjalds hefst á Breiðamerkursandi þann 1. júní 2023.

Sérstök athygli er vakin á því ákvæði reglugerðarinnar að veittur er 50% afsláttur af svæðisgjaldi ef annað gjaldskylt þjónustusvæði Vatnajökulsþjóðgarðs hefur áður verið heimsótt innan sama sólarhringsins og fullt gjald greitt þar. Tjaldstæðisgjöld eru ekki innifalin í svæðisgjaldi.

Sjá nánar texta reglugerðarinnar hvað varðar fjárhæðir og flokkun ökutækja. Reglugerðin er aðgengileg hér.

Sérstök athygli er vakin á því ákvæði reglugerðarinnar að veittur er 50% afsláttur af svæðisgjaldi ef annað gjaldskylt þjónustusvæði Vatnajökulsþjóðgarðs hefur áður verið heimsótt innan sólarhringsins og fullt gjald greitt þar. Tjaldstæðisgjöld eru ekki innifalin í svæðisgjaldi.

Nánari upplýsingar verða veittar í gegnum [email protected]