Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Dagur íslenskrar náttúru

Í dag fögnum við íslenskri náttúru í öllum sínum fjölbreytileika.

16. september 2022

Kverkjökull í allri sinni dýrð

Í Vatnajökulsþjóðgarði getur þú staðið á hæsta toppi landsins eftir langa jöklagöngu, dáðst að mosagrónum gígaröðum, borðað nestið þitt í úðanum af kraftmesta fossi Evrópu, talið selina sem stinga höfðinu upp á milli ísjaka á jökullóni og ekið um landslag sem svipar til tunglsins. Fjölbreytt náttúra þjóðgarðsins býður upp á einstaka möguleika til úvistar, upplifunar og innblásturs. Náttúran er djásn þjóðgarðsins, hæstráðandi og það sem ferðaþyrstir koma til að sækja heim. Verndum hana og virðum alla tíð.

Markmið Vatnajökulsþjóðgarðs er að vernda einstaka náttúru og sögu þjóðgarðsins, gefa almenningi kost á að njóta, stuðla að rannsóknum, fræða og einnig leitast við að styrkja byggð í nágrenni hans á sjálfbæran hátt. Verkefnið er ærið og í sífelldri þróun í kvikri náttúru.

Vatnajökulsþjóðgarður er einstakur á heimsvísu vegna jarðsögu sinnar sem einkum er skrifuð af langvarandi átökum elds og íss. Margir staðir skarta eldfjöllum eða jöklum og sumir hvoru tveggja en enginn þeirra státar af átökum flekaskila, möttulstróks og hveljökuls. Samspil þessara fyrirbæra og annarra landmótunarafla hefur skapað síbreytilegri og fjölbreyttari náttúru en finna má á nokkru öðru afmörkuðu svæði í heiminum. Í Vatnajökulsþjóðgarði má upplifa sköpun jarðar í beinni útsendingu.

Í þjóðgarðinum er alltaf dagur íslenskrar náttúru en í dag er tilvalið að staldra við og leiða hugann að fjölbreytileika hennar og hvernig við getum verndað hana um ókomna tíð.

Njótið dagsins og náttúrunnar