Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Ekkert vatn, ekkert rafmagn, ekkert mál! - Þurrsalernin í Vatnajökulsþjóðgarði

Alþjóðlegi salernisdagurinn var á laugardaginn. Að því tilefni vekur Vatnajökulsþjóðgarður athygli á þurrsalernum sem sjálfbærri salernislausn en alls eru nú þurrsalerni í rekstri á þremur stöðum innan þjóðgarðsins. Uppbygging og rekstur þurrsalerna styður við 6. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um að tryggja aðgengi að og sjálfbæra nýtingu á vatni og salernisaðstöðu.

21. nóvember 2022

Nýtt þurrsalerni við Heinabergslón sem tekið var í notkun í haust. Á sama stað var fyrir þurrsalerni sem byggði á annarri útfærslu en núverandi salerni og var ekki eins hagkvæmt í rekstri. Mynd: Gunnlaugur Róbertsson

Vatnajökulsþjóðgarður leggur áherslu á að veita góða þjónustu á áfangastöðum í samræmi við stjórnunar- og verndaráætlun. Á mörgum svæðum getur reynst snúið að sinna helstu grunnþörf manna. Uppsetning þurrsalerna þar sem er takmarkað aðgengi að vatni og rafmagni, og ef fara þarf langa leið með úrgang, reynist vera þar sjálfbærari rekstur en uppsetning og rekstur hefðbundinna vatnssalerna.

Í haust var tekið í notkun nýtt þurrsalerni við Heinabergsjökul. Útfærsla og hönnun á þurrsalerninu er álíka og á fyrstu þurrsalernum sem sett voru upp við Vikraborgir 2018 og við Dettifoss vestanverðan 2020 og byggir á finnskri fyrirmynd. Á öllum þessum salernum er ekkert vatn og engin rotþró. Föstum úrgangi er safnað í tunnur í kjallara og þvag fer á stærri salernunum áfram í sérstakan tank. Úrgangsefnið, íblandað viðarkurli, er svo meðhöndlað og nýtt til uppgræðslu í samstarfi við Landgræðsluna.

„Í heildina hefur gengið ótrúlega vel að sinna þessum salernum. Starfsfólk tók góðan þátt í hönnunarferlinu sem skilaði sér í góðri aðstöðu fyrir þau sem sinna þurfa daglegum rekstri. Góðar upplýsingar til notenda, bæði starfsfólks og gesta, skipta líka miklu máli.“, segir Sigurður Erlingsson, landvörður á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs en hann hefur sinnt eftirliti á salernum við bæði Vikraborgir og Dettifoss frá upphafi.

Vert er að benda á að töluvert meira rekstraröryggi fylgir þessum salernum en t.d. rekstri vatnssalerna á köldum svæðum því ekki þarf að hafa áhyggjur af því hvort lagnir stíflist eða það frjósi í lögnum. Húsin eru þó ekki alveg án orku, því sums staðar er sólarorka er nýtt til lýsingar. Fjármögnun framkvæmda við þurrsalernin kemur að mestu úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum.

Þurrsalernin eru gjörólík hefðbundnum, A-laga kömrum sem margir Íslendingar kannast við. A-laga kamrarnir eru engu að síður hluti af salernisþjónustu Vatnajökulsþjóðgarðs. Á fáfarnari slóðum eru kamrarnir nauðsynlegir innviðir til að veita grunnþjónustu og til verndar umhverfi og ásýnd. Í sumar voru settir upp sex nýjir kamrar víðsvegar um þjóðgarðinn.

Á laugardaginn, 19. nóvember var haldið uppá Alþjóðlega salernisdagurinn (e. World Toilet Day). Dagurinn hefur verið haldinn árlega af Sameinuðu þjóðunum frá 2013 til að fagna salernum og vekja athygli á þeim 3,6 milljörðum manna sem ekki hafa aðgang að öruggri hreinlætisaðstöðu. Meginskilaboð dagsins í ár eru tvenns konar: 1. Öruggur rekstur á hreinlætisaðstöðu verndar grunnvatn fyrir mengun vegna úrgangs manna. 2.Gera þarf betur til að tryggja örugga hreinlætisaðstöðu fyrir alla Jarðarbúa fyrir árið 2030, eins og stefnt er að í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Vatnajökulsþjóðgarður fagnar því að geta stutt við 6. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um að tryggja aðgengi að og sjálfbæra nýtingu á vatni og salernisaðstöðu, með uppbyggingu og rekstri þurrsalerna. Uppbyggingin heldur áfram og á næsta ári er stefnt að opnun þurrsalerna á tveimur stöðum, við Langavatnshöfða og Hólmatungur í Jökulsárgljúfrum.