Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Eldur, ís og mjúkur mosi - listaverk á gestastofum þjóðgarðsins

Listaverk ungs listafólks í nærumhverfi Vatnajökulsþjóðgarðs eru nú til sýnis í öllum gestastofum þjóðgarðsins.

11. júlí 2024
Textílverk af umhverfinu í Jökulsárgljúfrum í Gljúfrastofu eftir börn í Öxafjarðarskóla.

Verkin eru afrakstur verkefnisins Eldur, ís og mjúkur mosi sem nemendur í sex grunn- og leikskólum í nágrenni þjóðgarðsins auk eins á höfuðborgarsvæðinu unnu í samstarfi við breiðan hóp listafólks. Vatnajökulsþjóðgarður og Náttúruminjasafn Íslands hlutu styrk fyrir verkefninu frá Barnamenningarsjóði Íslands seinasta vetur.

Hluti af listaverkunum í Skaftafellsstofu eftir börn í Grunn- og leikskólann Hofgarði og Grunnskóla Hornafjarða.

Haldnar voru skapandi smiðjur í þátttökuskólunum með áherslu á sérstöðu svæða þjóðgarðsins. Nemendur skólanna þróuðu síðan verkefnin sín áfram í samvinnu við listafólk og kennara. Þau túlkuðu náttúru garðsins, verndargildi hans og sögu.. Í gegnum listræn ferli sköpuðust dýrmætar tengingar milli barnanna og Vatnajökulsþjóðgarðs, sem auka á meðvitund framtíðarkynslóðanna um þá sameign þjóðarinnar sem þjóðgarðurinn er. 

Furðuverk á Skaftárstofu eftir börn í Kirkjubæjarskóla á Síðu.

Listafólkið sem tók þátt í verkefninu með nemendum voru Brynhildur Kristinsdóttir, Eva Bjarnadóttir, Hanna Dís Whitehead, Íris Lind Sævarsdóttir, Jennifer Patricia Please, Sigríður Sunna Reynisdóttir í ÞYKJÓ, Sóley Stefánsdóttir, Una Margrét Árnadóttir og Örn Alexander Ámundason. Verkin voru sýnd í sýningarrými Náttúruminjasafns Íslands á 2. hæð Perlunnar á Barnamenningarhátíð í lok apríl og Hönnunarmars. Hægt er að skoða verk allra þátttökuskólanna (Egilsstaðaskóla, Grunn- og leikskólanum Hofgarði, Grunnskóla Hornafjarðar, Kirkjubæjarskóla á Síðu, Reykjahlíðarskóla, Urriðaholtsskóla og Öxarfjarðarskóla) á Fróðleiksbrunninum, fræðslusíðu Náttúruminjasafnsins.

Fjallvegir Flumbru á Snæfellsstofu eftir börn í Egilsstaðaskóla.

Við hvetjum, ykkur til að gera ykkur ferð á gestastofur Vatnajökulsþjóðgarðs í sumar og skoða listaverkin!

Geimgöngur og þjóðsögur á Gíg eftir börn í Reykjahlíðaskóla.