Beint í efni

Engar gastegundir mældust í íshelli í Breiðamerkurjökli

Engar gastegundir mældust í íshellinum í Breiðamerkurjökli í dag, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Í gær barst Veðurstofu tilkynning um óvenjulega lykt við hellinn og samkvæmt gasmælum var súrefnislaust í gær inni í hellinum sem kallaður er Kristallinn.

26. mars 2018

Engar gastegundir mældust í íshellinum í Breiðamerkurjökli í dag, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Í gær barst Veðurstofu tilkynning um óvenjulega lykt við hellinn og samkvæmt gasmælum var súrefnislaust í gær inni í hellinum sem kallaður er Kristallinn.

Mælingar voru gerðar í og við hellinn í morgun. „Fólk, sem var þarna á ferð í gær, fann fyrir bæði lykt og óþægindum við hellinn. Í morgun þegar farið var að mæla fannst ekki neitt,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Hann segir fólkið hafi brugðist rétt við í gær og ítrekar að alltaf þurfi að sýna ítrustu varúð við íshella hér á landi.

Tekin voru vatnssýni í morgun og verður flogið með þau til Reykjavíkur í dag. Niðurstaða úr mælingum á þeim liggur kannski fyrir nú í vikunni.

Lögreglu var gert viðvart um lyktina í gær og létu starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs alla ferðaþjónustuaðila á svæðinu vita af stöðunni.

Hellirinn var metinn mjög óöruggur og einarðlega mælst gegn ferðum í hann. Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs vinna í að koma fyrir viðvörunarskilti við hellinn.

Fréttatilkynning er tekin af heimasíðu RÚV.