Fjögur græn súkkulaðiskref
Vatnajökulsþjóðgarður lauk nú í haust fjórða Græna skrefi ríkisstofnana. Starfsmönnum var þakkað fyrir framlagið til verkefnisins með dýrindis súkkulaði. Alls eru Grænu skrefin fimm og er stefnt að klára það síðasta fyrir komandi áramót.

Ávinningur Grænu skrefanna er minni umhverfisáhrif, minni rekstrarkostnaður og aukin vellíðan starfsmanna. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur áherslu á og hvetur stofnanir sínar til að klára skrefin fimm fyrir komandi áramót. Vatnajökulsþjóðgarður vinnur ötullega að síðasta skrefinu þessa dagana og verða umhverfismálin m.a. eitt af viðfangsefnum starfsdaga í byrjun nóvember. Samhliða er unnið að uppfærslu umhverfis- og loftlagsstefnu ásamt því að koma á skilvirkri aðgerðaráætlun í umhverfismálum. Vatnajökulsþjóðgarður lauk fyrsta græna skrefinu á árinu 2019 og skrefum tvö og þrjú árið 2020. Grænu bókhaldi hefur verið skilað undanfarin ár til Umhverfisstofnunar og fyrsta sjálfbærniskýrsla þjóðgarðsins var gefin út í haust.
Fyrir um ári síðan tók Vatnajökulsþjóðgarður á leigu skrifstofurými í Nýheimum á Höfn í Hornafirði þar sem starfa tveir sérfræðingar sem sinna verkefnum þvert á þjóðgarðinn. Skrifstofan í Nýheimum gerði sér lítið fyrir og kláraði fyrstu fjögur skrefin á einu bretti í haust og naut að sjálfsögðu til þess dyggrar leiðsagnar starfsmanna sem fyrir voru búnir að ganga skrefin grænu.
Starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs er umfangsmikil og felur m.a. í sér rekstur ólíkra húsakosta, tjaldsvæða og fararskjóta. Starfsstöðvar og svæði eru fjölbreytt og ólík, vegalengdir geta verið langar innan svæða og reksturinn oft mjög árstíðabundinn. Áskoranir í umhverfismálum eru margar en sýn starfsmanna er að sjá tækifærin sem í áskorunum felast og leita leiða til að verða sífellt meðvitaðri og markvissari í umhverfisstjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs.