Fjöldi ferðamanna í Jökulsárgljúfrum nær óbreyttur milli ára
Nýjar tölur úr teljurum í Jökulsárgljúfrum gefa til kynna að gestakomur sumarið 2019 séu sambærilegar við gestatölur sumarsins 2018. Er þá átt við mánuðina júní, júlí og ágúst.
Nýjar tölur úr teljurum í Jökulsárgljúfrum gefa til kynna að gestakomur sumarið 2019 séu sambærilegar við gestatölur sumarsins 2018. Er þá átt við mánuðina júní, júlí og ágúst.
Alls voru 81.151 heimsóknir skráðar í Ásbyrgi þessa þrjá mánuði í sumar, en 81.572 á sama tíma í fyrra (-0,5%). Að Dettifossi komu 228.059 (138.451 vestan megin, 89.608 austan megin) en voru á sama tímabili í fyrra 228.441 (131.324 vestan megin, 97.117 austan megin). Munar þar -0,2% á milli ára. Í Vesturdal var talinn 24.391 gestur í sumar, en 25.094 gestir á sama tímabili í fyrra (-2,8%).
Í heildina voru gestakomur á þessum fjórum áningarstöðum innan Jökulsárgljúfra 333.601 í sumar (1. júní – 31. ágúst) en 335.107 á sama tímabili í fyrra. Er mismunurinn 1.506 eða sem jafngildir 0,4% fækkun.
Athygli vekur að gestum við Dettifoss austan ár fækkar lítillega á milli ára en að sama skapi fjölgar þeim vestan ár. Er það öfugt við þróunina árið þar á undan. Jafnframt verður að teljast athyglisvert að fjöldi gesta í Ásbyrgi er nánast óbreyttur milli ára, en eins og flestir vita var veður á norðausturhorni landsins ekki sérlega spennandi í sumar og hefur það alla jafna mikil áhrif á fjölda þeirra sem þangað koma í útilegu.