Fólk og fé á leið af fjöllum
Með haustinu þarf að reka sauðfé og landverði til byggða. Lengst af voru það fáir sem lögðu leið sína á fjöll fyrir utan smala og veiðimenn þó í dag sé þar margur ferðalangurinn. Á dögunum voru það þó einmitt smalar sem fjölmenntu til fjalla, enda er sjálfbær búfjárbeit heimil víða um þjóðgarðinn.
Smalað á Snæfellsöræfum. Mynd: Jóhann Þorvarður Ingimarsson.
Austan við jökulinn
Byggðin í Hrafnkelsdal og Fljótsdal er nú sem fyrr fjarri kaupstað og setur nábýlið við öræfin mark sitt á líf fólks þar. Bændur nýta landið enn í dag til sauðfjárbeitar, en einnig til veiða og útivistar. Lengst af voru gangnamenn á Snæfellsöræfum nær einu árlegu gestirnir þar en með tilkomu uppbyggðs Kárahnjúkavegar hefur gestum fjölgað. Snæfellsöræfi eru nú aðgengileg til útivistar; lengri og styttri gönguferða, veiða, fjallaskíðunar og vetraferða á ökutækjum og skíðum.
Undanfarna daga hafa þaulkunnugir og ólseigir smalar verið í leitum í þjóðgarðinum. Réttað var í Melarétt síðastliðin laugardag og það hefur verið mjög skemmtilegt að fylgjast með fénu skoppa fram hjá Snæfellsstofu á leið sinni í Melarétt.
Vestan við jökulinn
Stór hluti svæðisins er afréttur sauðfjárbænda. Þangað leitar sauðkindin í heiðalöndin og eltir nýgræðinginn upp um víðáttumikil fjöll og firnindi. Þegar hausta tekur birtast gangnamenn til að sækja hópinn og koma honum til byggða. Eins og síðastliðin ár tóku landverðir þátt í smalamennskunni og verkefnum tengdum henni, áttu skemmtilega daga með góðum hóp og þekkja svæðið sitt betur eftir en áður. Þó nokkrir starfsmenn enduðu svo í Grafarrétt í Skaftártungu enda ýmist búsett á svæðinu eða sinna störfum þar.
Landverðir tínast nú einn af öðrum af fjöllum og viðvera dettur niður yfir vetrartímann á hálendinu með lokun vega. Við minnum á að gestastofur og önnur þjónusta á láglendi er opin lengur eða allt árið. Hálendið er þó ávallt opið þeim sem þangað vilja sækja á tveimur jafnfljótum eða fjórum dekkjum á frosinni og snæviþakinni jörð.
Vetrarferðalangar eru minntir á að skoða vel veðurspá, vera vel búin/búnir og skilja eftir ferðaplön t.d. hjá safetravel.