Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Formleg opnun EISI/Jöklasýn

Fimmtudaginn 3. október var formleg opnun á verkefninu Jöklasýn, Extreme Ice Survey Iceland (EISI) sem er samstarf Jöklarannsóknafélags Íslands og ljósmyndarans James Balog.

15. október 2024
Svava Björk Þorláksdóttir segir frá sporðamælingum á Skaftafellsjökli á Sjónarnípu. Mynd: Kieran Baxter

Dagurinn hófst á fræðslugöngu í Skaftafelli í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð í mildu og fallegu haustveðri. Gengið var að sjónskífunni sem stendur við Sjónarnípu þar sem Hrafnhildur Hannesdóttir og Kieran Baxter sögðu frá verkefninu. Svava Björk Þorláksdóttir rakti sporðamælinga sögu Skaftafellsjökuls en hún sporðamælir jökulinn í dag.

Tímamyndskeið (e. time-lapse) af myndum sem hafa verið teknar frá sjónskífunni frá 26. júní til 29. ágúst. Tekið saman af Kieran Baxter. Nú þegar hafa yfir 400 myndum verið hlaðið upp í gagnabankann.

Um kvöldið voru haldnar kynningar í húsakynnum Glacier Adventure á Hala í Suðursveit. Á Hala mættu um 50 manns og hlýddu á erindi Jöklarannsóknafélagsins og starf þess gegnum árin, helstu mælingar, gamlar ljósmyndir, sporðamælingar og sögu og þróun verkefnisins Jöklasýnar. Andri Gunnarsson, Hrafnhildur Hannesdóttir og Kieran Baxter fluttu erindin.

Það var vel mætt í hlöðunni á Hala til að hlusta á erindi um jökla. Mynd: Kieran Baxter

Verkefnið er góð viðbót við fræðslu um jökla og jöklabreytingar í Skaftafelli, sem er megináherslan í fræðslu á svæðinu sem og í öllum þjóðgarðinum. Mikil ánægja er því með verkefnið innan þjóðgarðsins.

Nánar má lesa um Jöklasýn og hvernig hægt er að taka þátt í verkefninu á www.eisi.is

Hópurinn við heimsminjaplatta UNESCO í Skaftafelli í upphafi fræðslugöngunnar. Mynd: Jón Ágúst Guðjónsson.