Forseti Íslands heimsótti landverði á Breiðamerkursandi
Forsetahjónin kynntust meðal annars starfsemi Náttúruverndarstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs í opinberri heimsókn í Sveitarfélagið Hornafjörð.

Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, og eiginmaður hennar, Björn Skúlason, voru í opinberri heimsókn í Sveitarfélaginu Hornafirði dagana 12. og 13. mars. Þau ferðuðust um allt sveitarfélagið og heimsóttu meðal annars landverði og starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs á Breiðamerkursandi.

Forsetahjónin fengu hlýjar móttökur í Skúmaskoti, húsnæði landvarða við Jökulsárlón, þar sem þeim var boðið upp á heitt súkkulaði með rjóma, sem féll vel í kramið. Þau fengu kynningu á störfum landvarða og þeim áskorunum sem svæðið stendur frammi fyrir. Að kynningunni lokinni var gengið niður að lóninu, sem blasti við í allri sinni dýrð.
Eftir heimsóknina á Jökulsárlón heimsóttu þau Hótel Jökulsárlón og tóku síðan þátt í opnum viðburði í Hofgarði í Öræfum, þar sem íbúar fengu tækifæri til að hitta forsetahjónin og ræða við þau.
Við þökkum frú Höllu Tómasdóttur og Birni Skúlasyni kærlega fyrir heimsóknina.

