Fræðsla á alþjóðlega salernisdeginum
Alþjóðlegi salernisdagurinn (World Toilet Day) er í dag, 19. nóvember og er haldið upp á hann árlega hjá Sameinuðu þjóðunum.
Alþjóðlegi salernisdagurinn (World Toilet Day) er í dag, 19. nóvember og er haldið upp á hann árlega hjá Sameinuðu þjóðunum. Markmiðið er að minna á að milljónir manna búa enn ekki við fullnægjandi salernisaðstöðu en það hefur áhrif á hreinlæti, mengun, heilsu og öryggi. Sjötta heimsmarkmiðið er að tryggja aðgengi að og sjálfbæra nýtingu, allra á hreinu vatni og salernisaðstöðu.
Hér á landi erum við lánsöm að eiga mikið af hreinu vatni til að drekka og nýta í hreinlætisaðstöðu. Undanfarin ár með auknum fjölda ferðamanna má fullyrða að salernismálin hafa verið í brennidepli og þörf hefur verið á hraðri uppbyggingu á þjónustu sem er mikilvægt að gera vel.
Fræðsluganga í Skaftafelli
Í tilefni dagsins stendur Vatnajökulsþjóðgarður fyrir sérstakri fræðslugöngu með landverði sem mun velta upp ýmsum spurningum í tengslum við vatn, náttúruvernd og rekstur þjóðgarða eins og hvernig væri að heimsækja Skaftafell ef ekki væru í boði klósett fyrir gesti? Og hvað ætli klárist margar rúllur af klósettpappír á ári? Ef við erum stödd í Skaftafelli gætum við rúllað pappír alla leið á Ísafjörð?
Það eru að sjálfsögðu allir velkomnir og dagskráin er gjaldfrjáls að undanskildu þjónustugjaldinu sem innheimt er í Skaftafelli. Fræðslan mun taka um klukkustund og hefst kl. 13:30.
Áskorunum mætt með einfaldleika
Vaxandi fjöldi ferðamanna hefur hvatt Vatnajökulsþjóðgarð í umfangsmikil verkefni á undanförnum árum við að byggja upp þjónustu og á sama tíma gæta náttúrunnar. Á láglendi og hálendi þjóðgarðsins eru fjölbreyttar og krefjandi aðstæður, oftar en ekki fjarri byggð og innviðum sem annars þykja sjálfsagðir á Íslandi í dag. Frumstæðar aðstæður, metnaður til sjálfbærni og hagkvæms rekstrar útfrá umhverfislegum- og fjárhagslegum kostnaði voru leiðarljós í hönnun salerna sem rekin eru í Vikraborgum í Öskju.