Framtíð Vatnajökulsþjóðgarðs er björt
Vatnajökulsþjóðgarður er 11 ára gamall og ber þess merki að farið var af stað af mikilli framsýni og bjartsýni þó að um sé að ræða flókinn og umfangsmikinn rekstur.
Vatnajökulsþjóðgarður er 11 ára gamall og ber þess merki að farið var af stað af mikilli framsýni og bjartsýni þó að um sé að ræða flókinn og umfangsmikinn rekstur. Hvort heldur stjórnsýslulega, fjárhagslega eða landfræðilega. Fjölgun ferðamanna í Vatnajökulsþjóðgarði hefur orðið margfalt meiri en nokkur gerði ráð fyrir þegar þjóðgarðurinn var stofnaður sem hefur kallað á hraða uppbyggingu innviða og aukið mannafl. Sú staðreynd hefur m.a. valdið tímabundnum árskorunum undanfarin misseri sem hafa kallað á samstillt átak stjórnar, starfsmanna og ráðuneytis við að styrkja innviði og efla samráð og samvinnu við fjölmarga sem tengjast þjóðgarðinum.
Framundan eru fjölmörg tækifæri hjá Vatnajökulsþjóðgarði til að halda áfram að þróast sem stórkostlegur þjóðgarður, Enda er það mikið happ að hjá þjóðgarðinum starfar öflugur hópur starfsfólks með einstaka reynslu og þekkingu á því að byggja upp og reka einn stærsta þjóðgarð Evrópu. Rúsínan í pylsuendanum er svo að á næstu vikum verður að öllum líkindum tilkynnt að Vatnajökulsþjóðgarður sé að komast á Heimsminjaskrá.
Magnús Guðmundsson
framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs