Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Fuglalíf í upphafi sumars

Reglulegar vaktanir og rannsóknir á fuglum eru mikilvægar til að auka þekkingu og skilning okkar á þessum fjölbreyttu lífverum sem við deilum búsetu með á eldfjallaeyjunni Íslandi. Skilvirk gagnaöflun er nauðsynleg til að geta metið breytingar milli ára og lengri tímabila, ekki síst núna á tímum hnattrænna breytinga á loftslagi.

2. júní 2022

Ungar helsingja í hreiðri í Skúmey á Jökulsárlóni. Mynd: Lilja Jóhannesdóttir.

Innan Vatnajökulsþjóðgarðs hafa í mörg ár farið fram talningar og eftirlit á ákveðnum fuglategundum. Vorið var engin undantekning frá fyrri árum og var sannkallað fuglafjör í rannsóknum og eftirliti, hvort sem var norðan, austan eða sunnan jökuls.

Nánar um áhrif loftslagsbreytinga á fugla í náttúru Íslands má finna hér í myndbandi frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Vöktun í þjóðgarðinum

Í Skaftafelli fór fram árleg talning á rjúpu í lok apríl. Ólafur K. Nielsen, fuglafræðingur á Náttúrfræðistofnun Íslands hélt utan um talninguna. Með honum voru tveir grískir nemar í starfsnámi ásamt einum starfsmanni frá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. Fimm starfsmenn þjóðgarðsins tóku einnig þátt í talningunni sem stóð yfir í fjórar klst og byrjað var kl. sex að morgni.

Í nágrenni Ásbyrgis fór einnig fram árleg talning á rjúpu í vor, nánar tiltekið í landi Hafurstaða. Ólafur fuglafræðingur fór þar einnig fyrir talningunni, ásamt starfsfólki Náttúrustofu Norðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarðs. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands greindist eindregin uppsveifla í stofnstærð rjúpu í öllum landshlutum nema á austanverðu landinu.

Um þessar mundir stendur svo yfir árleg vöktun Náttúrufræðistofnunar Íslands á fálkaóðulum á norðausturhorninu, þar á meðal í Jökulsárgljúfrum.

Á Breiðamerkursandi fór Náttúrustofa Suðausturlands í Skúmey í Jökulsárlóni þann 28. maí hvar hreiður helsingja voru talin, sjötta árið í röð. Tveir starfsmenn þjóðgarðsins fóru með í vöktunarferðina. Skúmey er lítil eyja í Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. Eyjan kom undan Breiðamerkurjökli við lok 20. aldar og er í dag þéttbýlasti varpstaður helsingja á Íslandi. Helsingjahreiður í Skúmey voru fyrst talin árið 2014 og voru þá 361, árið 2017 voru þau 968 og í ár voru þau 1989. Eyjan og svæði í kringum eyjuna, alls 49 ha, er flokkað undir verndarflokk Ia í viðauka við stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins, sem svæði sem stjórnað er einkum vegna vísindalegs gildis.

Halldór Walter, fuglafræðingur, var síðan á ferðinni á heiðum Austurlands í lok maí hvar hann náði góðum myndum af heiðagæs í vorverkum og rjúpukarra við Syðradag á Vesturöræfum. Hugsanlega var karrinn á sinni reglulegu óðalsvakt þetta vorið.

Myndir frá vöktunarferðum má finna á facebook síðu þjóðgarðsins.

Fuglaflensan

Í apríl voru staðfest fyrstu tilfelli fuglaflensuveiru á Íslandi, þeirrar sömu og hefur geisað í Evrópu. Síðan þá hefur verið staðfest að veiran sé útbreidd í villtum fuglum og hefur hún m.a. fundist í dauðum skúmi á Breiðamerkursandi. Í frétt hjá RÚV er haft eftir Brigitte Brugger, dýralækni alifugla, að engin ástæða er fyrir almenning að hræðast smit en fyllstu varúðar þarf að gæta til að flensan berist ekki inn á alifuglabú.

Hér má nálgast leiðbeiningar frá Matvælastofnun ef villtur fugl finnst dauður:

Hvað á að gera ef villtur fugl finnst dauður?

Þegar villtur fugl finnst dauður, skal hafa samband við MAST, nema ef augljóst er að hann hafi drepist af slysförum. Best er að tilkynna um dauðan fugl með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar, en líka er hægt að hringja í síma 5304800 á opnunartíma eða senda tölvupóst á netfangið [email protected]. MAST metur hvort taka skuli sýni úr fuglinum.

Hræ skal látið liggja nema ef það er þannig staðsett að nauðsynlegt sé að fjarlægja það. Ef það er gert skal hræið sett í plastpoka, án þess að það sé snert með berum höndum, lokað fyrir pokann og hann síðan settur í almennt rusl. Ef viðkomandi sveitarfélag býður uppá förgunarleið fyrir lífrænan úrgang má setja hræið í niðurbrjótanlegum poka í söfnunarílát fyrir slíkan úrgang.

Við getum ekki annað en vonað að fuglaflensan gangi fljótt yfir hér á landi og að fuglalíf landsins verði ekki fyrir miklum afföllum.

Gestum þjóðgarðsins óskum við góðrar upplifunar af náttúru þjóðgarðsins í sumar hvar ríkulegt fuglalíf skipar stóran sess.