Fyrsta hjálp – fyrsta verkefnið
Í Vatnajökulsþjóðgarði er rík áhersla lögð á forvarnir. Hvað starfsfólk varðar er lögð áhersla á jákvætt vinnuumhverfi og öfluga þjálfun starfsmanna með tilliti til eigin heilsu og færni í starfi með tilliti til forvarna og faglegs viðbragðs. Varðandi gesti er markmiðið að stuðla að öryggi eins og frekast er kostur en helstu verkfæri í því samhengi eru hættumat, upplýsingagjöf og ígrundaðar leiðbeiningar. Í þeim tilfellum sem slysum verður ekki forðað er áhersla á faglegt viðbragð og skilvirkt samstarf við viðbragðsaðila.
Vatnajökulsþjóðgarður leggur mikla áherslu á að starfsfólk sé í stakk búið til þess að bregðast við slysum og óhöppum á svæðunum áður en frekari bjargir berast. Aðstæður á hálendi geta verið erfiðar og á flestum starfsstöðvum þjóðgarðsins er langt í aðrar bjargir. Á hverju vori býður þjóðgarðurinn verðandi sumarstarfsfólki að taka þátt í Fyrstu hjálpar námskeiði fyrir vertíðina.
Hrafnhildur Ævarsdóttir, þjóðgarðsvörður í Skaftafelli, er einnig björgunarsveitarkona og leiðbeinandi í fyrstu hjálp og hefur undanfarin ár séð um kennslu fyrstu hjálpar í þjóðgarðinum. Kosturinn við það fyrirkomulag er innsýn inn í reynsluheim landvarða á vettvangi og þar með hagnýtari kennsla.
Í upphafi sumarvertíðar fara fram þjálfunardagar starfsfólks á hverju starfssvæði fyrir sig. Námskeið í fyrstu hjálp er stór hluti af þjálfuninni og þetta sumarið tóku um 70 einstaklingar námskeiðið hjá Hrafnhildi. Námskeiðið í ár var haldið í samstarfi við Umhverfisstofnun hvar 19 einstaklingar sátu námskeiðið. Bóklegi hluti námskeiðsins fer fram á netinu en verklegi hlutinn var haldinn í Garðabæ, í Gljúfrastofu í Ásbyrgi, í Snæfellsstofu í Fljótsdal og í Skaftafelli.
Náttúra Vatnajökulsþjóðgarðs getur reglulega af sér vá sem krefst viðbragða almannavarna og vísindasamfélagsins. Vatnajökulsþjóðgarður hefur lagt sig fram um náið samstarf við viðbragðsaðila og aðra fagaðila í slíkum tilfellum.
Um leið og við óskum gestum okkar góðs sumars og fjörugra ævintýra í þjóðgarðinum vonumst við engu að síður til þess að þurfa sem minnst að beita fyrstu hjálpar kunnáttu okkar!
Góður ferðaundirbúningur, skynsamlegt leiðarval og raunhæft mat á eigin getu er lykill að ánægjulegu og slysalausu ævintýrasumri!