Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Gerð nýs landlíkans af Vatnajökli með gervihnattamyndum

Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans, í samvinnu við fleiri aðila innlenda sem erlenda, vinnur nú að gerð nýs landlíkans af Vatnajökli og fleiri jöklum landsins

3. september 2021
Mynd 1: Pléiades gervihnattamynd af Skeiðarárjökli frá 16. ágúst 2021. ©CNES, Airbus DS.

Landlíkanið er unnið út frá gervihnattamyndum og hafa fyrstu myndirnar úr verkefninu litið dagsins ljós. Gervihnattamyndir voru teknar af stórum hluta Vatnajökuls þann 16. ágúst síðastliðinn og þar má meðal annars sjá fallega Pléiades gervihnattamynd af Skeiðarárjökli (mynd 1). Mynd 2 sýnir svæðið sem myndað hefur verið með SPOT7 gervihnetti. Út frá gervihnattamyndunum hafa verið gerð fyrstu drög að nýju landlíkani Vatnajökuls. Að sögn Tómasar Jóhannssonar hjá Veðurstofu Íslands og Joaquín M. C. Belart hjá Landmælingum Íslands, lofa þessar fyrstu myndir og úrvinnsla þeirra góðu um framhald verkefnisins. Landlíkanið gefur kost á að meta breytingar á hæð yfirborðs og rúmmáli jökulsins frá því að yfirborð hans var síðast kortlagt með leysitækni (lidar) á árunum 2010–2012 (myndir 3 og 4). Fyrirhugað er einnig að korleggja nokkra aðra jökla landsins á þessu ári með sama hætti, m.a. Langjökul og Mýrdalsjökul. Hofsjökull var myndaður með sömu tækni með Pléiades gervihnetti í fyrrasumar.

Gervihnattamyndum (SPOT6/7, Pléiades) er aflað er í samvinnu við franskar samstarfsstofnanir (CNES og Airbus DS). Aðrir samstarfsaðilar eru Vatnajökulsþjóðgarður og Landsvirkjun sem ýmist leggja fram vinnu, aðstöðu eða fjármuni til þess að standa straum af kostnaði við myndatökuna. Ýmis alþjóðleg samstarfsverkefni (GEOSUD, GEOS, ISIS) standa einnig straum af kostnaði.

Mynd 2: Kort sem sýnir SPOT7 myndatökusvæðið þann 16. ágúst 2021. Aðrir hlutar jökulsins verða myndaðir með Pléiades gervihnetti.

Mynd 3: Breyting á hæð yfirborðs Vatnajökuls frá 2010–2012 til 2021 skv. fyrstu drögum að nýju landlíkani af Vatnajökli.

Mynd 4: Breyting á hæð yfirborðs á neðsta hluta Skeiðarárjökuls frá 2012 til 2021 skv. fyrstu drögum að nýju landlíkani af Vatnajökli.