Gestastofa á Kirkjubæjarklaustri
Undirbúningur byggingar gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri hefur staðið yfir í nokkur ár, í náinni samvinnu við Skaftárhrepp og fleiri hagsmunaaðila.Þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir undirritaði samning um gestastofuna á Kirkjubæjarklaustri þann 19. nóvember 2016 og síðan hefur verið unnið að undirbúningi og hönnun.

Lóð undir gestastofu á Kirkjubæjarklaustri er vestan við Skaftá beint á móti byggðinni á Kirkjubæjarklaustri og er hún höfðingleg gjöf til Vatnajökulsþjóðgarðs frá Magnúsi Þorfinnssyni landeiganda. Fjármögnun gestastofu hefur verið á fjárlögum í nokkrum áföngum allt frá árinu 2016 og er áætlaður byggingakostnaður um 650 milljónir króna. Umsjón með framkvæmdinni er í höndum Framkvæmdasýslu ríkisins og er gestastofan nú tilbúin til útboðs og má því búast við því að jarðsvegframkvæmdir hefjist á næstu mánuðum.
Þetta er sannkallað fagnaðarefni, sérstaklega á óvissutímum sem þessum, þegar atvinnuskapandi verkefni geta verið byggðarlaginu mikilvæg styrking.

